Alexander spilaði á línunni

Alexander Júlíusson fékk að taka þátt í alvöru slagsmálum í …
Alexander Júlíusson fékk að taka þátt í alvöru slagsmálum í kvöld eins og hann orðaði það. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skyttan Alexander Júlíusson spilaði á línunni fyrir Val í síðari hálfleik þegar FH sigraði Val 31:30 í Olís-deildinni. Ýmir Örn Gíslason var ekki leikfær og Orri Freyr Gíslason fékk rauða spjaldið seint í fyrri hálfleik. 

Hvernig er líf línumannsins? „Það er bara mjög gaman að skella sér í nýtt hlutverk og bregða sér aðeins inn á línuna og fara í alvöru slagsmál. Þar er gott að vera. Ég nýtti tækifærið þegar Orri fékk rautt og tók slaginn þar,“ sagði Alexander og leyfði sér að hafa gaman að spurningunni þrátt fyrir tapið þegar mbl.is ræddi við hann í Kaplakrika. Þar sem Ýmir var ekki með þá vissi Alexander fyrir leik að hann þyrfti að leysa stöðu línumanns ef eitthvað kæmi fyrir Orra. 

„Við erum náttúrlega með Ými og Orra. Ekki hefur verið þörf á neinu öðru þar sem þeir hafa verið mjög traustir. Þetta var ekki skipulagt en vorum meðvitaðir um að ég gæti þurft að bregða mér inn á línuna þar sem Ýmir er meiddur. Þjálfarinn hvíslaði því að mér fyrir leik en meira var það ekki.“

Valsmenn voru þremur mörkum yfir þegar sjö mínútur voru eftir en skoruðu ekki mark eftir það. FH-ingar tryggðu sér sigurinn með því að skora síðustu fjögur mörkin. „Það er vont að horfast í augu við það að hafa ekki haldið út leikinn því mér fannst við vera með þá. Við höfðum haldið forskoti allan leikinn og því alger óþarfi að okkar hálfu að gefa eftir. Gústi (Ágúst Elí Björgvinsson markvörður FH) varði vel síðustu mínúturnar,“ sagði Alexander í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert