Ótrúleg upplifun að spila fyrsta landsleikinn

Einar Bragi Aðalsteinsson spilaði sinn fyrsta landsleik í kvöld.
Einar Bragi Aðalsteinsson spilaði sinn fyrsta landsleik í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var frábært, æðisleg upplifun og mikill heiður að spila fyrir framan okkar fólk, fulla höll. Þetta var æðislegt,“ sagði hinn 22 ára gamli Einar Bragi Aðalsteinsson leikmaður FH í samtali við mbl.is í kvöld.

Einar lék sinn fyrsta A-landsleik í stórsigrinum á Eistlandi, 50:25, í fyrri leik liðanna í umspili um sæti á HM í byrjun næsta árs. Íslenska liðið var með mikil og góð tök á leiknum allan tímann.

„Það var lítið um mistök í þessu í fyrri hálfleik hjá okkur. Það voru hrikalega mikil gæði, enda erum við með frábæra leikmenn. Þetta var gaman,“ sagði Einar sem tókst ekki að skora, en var ófeiminn við að láta vaða á þeim skamma tíma sem hann var inn á.

Einar Bragi Aðalsteinsson, Einar Þorsteinn Ólafsson og Elvar Ásgeirsson kátir …
Einar Bragi Aðalsteinsson, Einar Þorsteinn Ólafsson og Elvar Ásgeirsson kátir í leikslok. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér leið hrikalega vel og að sjálfsögðu langaði mig í markið. Það kemur seinna,“ sagði Einar.

Hann var ekki í upprunalega hópnum en forföll vegna meiðsla þýddu að hann var kallaður inn í hópinn. „Ég mætti á æfingu á mánudag og þriðjudag og svo fund í hádeginu og þá var hópurinn kynntur. Ég bjóst við þessu frá mánudeginum, eða í það minnsta vonaði það innilega.“

Lækkað var í þjóðsöngnum fyrir leik og áhorfendur tóku yfir og sungu hátt og snjallt. „Það er erfitt að lýsa því, en þetta var ótrúleg upplifun,“ sagði Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert