„Ísland er alltaf númer 1, 2 og 3“

Logi Gunnarsson þakkar fyrir sig í síðasta skipti sem landsliðsmaður.
Logi Gunnarsson þakkar fyrir sig í síðasta skipti sem landsliðsmaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þó Logi Gunnarsson hafi aðeins leikið 16 sekúndur í 76:75-sigrinum á Tékkum í undankeppni HM í körfubolta í dag, tók hann sviðsljósið. Hann gaf það út fyrir verkefnin gegn Finnlandi og Tékkum að hann myndi hætta með landsliðinu og gengur hann sáttur frá borði eftir tvo sigurleiki í röð, þó leikurinn í dag hafi verið óþarflega jafn, eftir að Ísland náði góðu forskoti.

„Það var erfitt að fylgjast með þessu, við gerðum þetta óþarflega jafnt. Það var voðalega stutt á milli og þetta hefði getað farið á báða vegu, sem var óþarfi því við vorum 14 stigum yfir. Það var erfitt að horfa á það því ég vildi svo virkilega klára þetta með tveimur sigrum. Ég er mjög sáttur og get gengið frá borði á jákvæðan hátt."

Hann segir það gefa sér mikið að ná í sigur í síðasta leik. 

„Þetta gefur mér mikið. Þetta snýst um árangur liðsins og að hætta eftir tvo sigurleiki er frábært. Þetta var langsóttur sigur, við vissum fyrir leikina að þetta væru stórþjóðir sem við værum að spila við, en það er frábært að enda ferilinn með tveimur sigrum fyrir framan fulla höll, ég gat ekki beðið um meira."

Fyrir leik fékk Logi blóm frá forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni við mikinn fögnuð þeirra rúmlega 1800 stuðningsmanna sem lögðu leið sína í Laugardalinn.

„Börnin voru hjá mér og ég fékk blóm frá forsetanum og KKÍ. Það voru allir klappandi fyrir mér og þetta var mjög sérstakt. Ég mun aldrei gleyma þessu. Ég er mjög stoltur af mínum ferli og það sem ég hef gert fyrir Ísland og körfuboltann. Landsliðið hefur á sama tíma gefið mér mikið. Það hefur alltaf verið partur af mínum ferli og liðsfélagarnir eru frábærir. Það verður erfitt að sjá þá vera að spila og ég ekki með. Það er hins vegar partur af þessu og ég er sáttur við þessa ákvörðun."

Nú taka við breyttir tímar hjá Loga í kringum landsleiki, en hann segist ekki hafa horft á landsleik í sjónvarpinu síðan hann var 10 ára, alltaf gefið kost á sér, þó það hafi ekki alltaf við mjög hentugt. 

„Ætli ég hafi ekki verið 10 ára gutti að horfa á landsleik. Ég hef alltaf verið með og alltaf gefið kost á mér þó það hafi stundum verið erfitt. Það hefur stundum verið vesen hjá mínum félagsliðum erlendis og stundum hef ég misst laun út af því, það hefur hins vegar verið þess virði því Ísland er alltaf númer 1,2 og 3 hjá mér."

Hann er ekki alveg hættur afskiptum af landsliðinu, þó hann spili ekki meira.

„Ég verð vonandi eitthvað í kringum þetta landslið meira. Ég læt mig ekki alveg hverfa, ég kem einhvern veginn að þessu," sagði Logi að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert