Boston í bílstjórasætið

Jayson Tatum skoraði 33 í nótt
Jayson Tatum skoraði 33 í nótt AFP/JASON MILLER

Boston Celtics tók 2:1 forystu gegn Cleveland Cavaliers í úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta í nótt. Gestirnir grænklæddu unnu sannfærandi 106:93.

Cleveland vann í Boston aðfaranótt föstudags með 24 stigum en Celtics var skrefinu á undan allan leikinn í nótt. Boston leiddi með níu stigum í hálfleik og heimamenn ógnuðu forskotinu aldrei. Liðin mætast að nýju í Cleveland annað kvöld.

Jayson Tatum og Jaylen Brown voru atkvæðamestir í liði Boston, Tatum skoraði 33 stig, tók þrettán fráköst og gaf sex stoðsendingar. Brown skoraði 28 stig og tók níu fráköst. Kristaps Porzingis missti af fjórða leik sínum í röð vegna tognunar á kálfa.

Miðherjinn Jarrett Allen er enn meiddur og lék ekki með Cleveland í kvöld. Donovan Mitchell skoraði 33 stig og Evan Mobley 17 fyrir Cavs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert