Allir bankar lánuðu meira

Útlánasafn Landsbanka, Kaupþings og Glitnis óx um 3.541 milljarð króna frá júnílokum 2007 fram á mitt þetta ár. Hluti af hinum mikla vexti skýrist af gengisfalli krónunnar í byrjun þessa árs en raunaukning útlána var samt sem áður, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, um 1300 milljarðar króna. Á tímabilinu var mikil lausafjárkreppa í heiminum og margar lánalínur bankanna höfðu lokast.

Mesti vöxtur hjá Landsbanka

Útlán Landsbanka Íslands til viðskiptavina sinna jukust um 1.600 milljarða króna frá árslokum 2005 fram á mitt þetta ár. Þau voru þá 2.571 milljarður króna. Frá miðju ári 2007 þar til í lok júní síðastliðins jukust útlán Landsbankans til viðskiptavina alls um 1.004 milljarða króna, eða um 64 prósent. Hluti af þessum vexti skýrist af gengisfalli krónunnar en ef tekið er tillit til gjaldmiðlasveiflna jukust útlán Landsbankans á þessu tímabili um 31,3 prósent.

Vert er að taka fram að innlán Landsbankans jukust einnig gríðarlega á allra síðustu árum eftir að Icesave netreikningunum var hleypt af stað hinn 10. október 2006. Áður en að þeir voru opnaðir voru innlán viðskiptavina bankans rúmlega 500 milljarðar króna en höfðu vaxið í rúmlega 1.600 milljarða í lok júní 2008. Halldór J. Kristjánsson, fyrrum bankastjóri Landsbankans, sagði í viðtali við Morgunblaðið hinn 9. október að þeir peningar sem komu inn á Icesave-reikningana hefðu verið notaðir til útlána í Bretlandi þar sem bankinn hefði verið stór þátttakandi í atvinnulífinu.

Efnahagsreikningur Kaupþings var stærstur allra íslenskra banka. Útlán bankans námu 4.169 milljörðum króna um mitt þetta ár og höfðu þá aukist um rúma 1.500 milljarða króna á einu ári. Með teknu tilliti til gjaldmiðilssveiflna uxu útlán Kaupþings um rúma 550 milljarða króna, eða 21,2 prósent á tímabilinu.

62% vöxtur útlána hjá Glitni

Kaupþing vann líka markvisst í því á liðnum árum að auka innlán sín frá erlendum viðskiptavinum með Kaupþing Edge netreikningum. Í árslok 2006 námu innlán viðskiptavina til Kaupþings alls 751 milljarði króna. Í júní voru þau orðin 1.848 milljarðar króna.

Morgunblaðið greindi frá því í gær að útlánasafn Glitnis hefði vaxið um þúsund milljarða króna eftir að FL Group varð ráðandi í eigendahópi bankans. Ný stjórn undir forystu þeirra boðaði stefnumarkandi ákvörðun um að auka útlán bankans mikið. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var sérstaklega ákveðið að lána fjárfestingarfélögum sem stóðu í hlutabréfakaupum. Mesta aukningin varð á fjórða ársfjórðungi 2007 og í byrjun árs 2008. Fjárfestingarfélög tengd FL Group, stærsta eiganda Glitnis fyrir fall bankans, fengu mörg hver há lán hjá bankanum á því tímabili. Útlánavöxtur Glitnis á þessu eina ári nam samtals 62 prósentum. Vert er þó að taka fram að veiking krónunar hafði töluverð áhrif á vöxtinn eftir að hún hóf að falla í janúar síðastliðnum. Ef tekið er tillit til gjaldmiðlasveiflna jukust útlán Glitnis um 23,5 prósent á tímabilinu.

Glitnir fór ekki fram með sama hraða og hinir bankarnir tveir í að safna innlánum erlendis. Heildarumfang innlána hjá Glitni var 438 milljarðar króna í lok árs 2006 og uxu í 725 milljarða króna á árinu 2007. Þau höfðu síðan dregist saman um 15 milljarða króna í lok júní síðastliðins.

Mikil aukning í lánum til eignarhaldsfélaga

Heildarútlán allra bankanna til eignarhaldsfélaga hafa aukist gríðarlega á þessu ári og farið úr tæpum þúsund milljörðum króna í 1.700 milljarða króna. Fall krónunnar hefur þar vissulega áhrif en samt sem áður er töluverð raunaukning í útlánum til slíkra félaga.

Samkvæmt hagtölum Seðlabankans höfðu íslensku bankarnir ekki lánað eina krónu til slíkra félaga

í mars 2005. Síðan þá hafa útlán til þeirra vaxið jafnt, þétt og hratt. Í ársbyrjun 2006 voru þau orðin 445 milljarðar króna og 683 milljarðar króna ári síðar. Þau voru síðan tæpir þúsund milljarðar króna um síðustu áramót.

Kaupþing er eini bankinn sem tilgreinir hversu mikið hann lánar til eignarhaldsfélaga í ársreikningi sínum. Í hálfs árs uppgjöri Kaupþings fyrir 2008 kemur fram að tæp sautján prósent útlána bankans til viðskiptavina hafi verið til eignarhaldsfélaga. Það eru rúmir 700 milljarðar króna. Hvorki Glitnir né Landsbanki gáfu upp hlutfall útlána til eignarhaldsfélaga í sínum reikningum. Með því að draga útlán Kaupþings til þeirra frá heildarútlánum kemur þó í ljós að bankarnir tveir hafa, ásamt öðrum fjármálastofnunum í landinu, lánað saman um þúsund milljarða króna til eignarhaldsfélaga.

Í hnotskurn
» Alls námu útlán íslenska bankakerfisins til innlendra aðila tæpum 6.000 milljörðum króna í lok septembermánaðar. Mest var lánað til fyrirtækja af ýmsu tagi, eða 2.118 milljarðar króna.
» Eignarhaldsfélög komu þar á eftir með heildarlán upp á rúma 1.700 milljarða.
» Heimilin í landinu fengu rúma þúsund milljarða króna að láni og innlend fjármálafyrirtæki alls um 626 milljarða króna.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK