QuizUp fer líka í breskt sjónvarp

Stígur Helgason, product manager yfir My QuizUp og Þorsteinn Baldur …
Stígur Helgason, product manager yfir My QuizUp og Þorsteinn Baldur Friðriksson, framkvæmdastjóri og stofnandi Plain Vanilla Eggert Jóhannesson

ITV fjölmiðlarisinn, sem rekur hátt í tíu sjónvarpsstöðvar í Bretlandi, hefur keypt réttinn að QuizUp spurningaþættinum þar í landi og ætlar að framleiða prufuþátt.

Þorsteinn kynnti þáttinn fyrir breskum sjónvarpsstöðvum í London í síðustu viku og ITV beið ekki boðanna. Um er að ræða fyrstu evrópsku stöðina sem tryggir sér rétt til að framleiða og sýna þáttinn. Einnig er þetta fyrsti þátturinn frá NBCUniversal International Studios sem seldur er til Evrópu áður en hann fer í loftið í Bandaríkjunum.

Fjöldi sjónvarpsstöðva víða úr heiminum hefur sýnt sjónvarpsréttinum á QuizUp áhuga á MIPCOM kaupstefnunni sem er nýhafin í Cannes í Frakklandi og stendur fram eftir vikunni. Þar eru nú staddir Þorsteinn B. Friðriksson, stofnandi Plain Vanilla og Viggó Örn Jónsson framleiðandi á vegum NBC að kynna þáttinn fyrir innkaupa- og dagskrárstjórum sjónvarpsstöðva um allan heim.

Alls eru um 15 þúsund manns sem sækja ráðstefnuna í því skyni að skoða nýtt sjónvarpsefni. Dagskrárstjórar allra íslensku sjónvarpsstöðvanna eru til að mynda staddir á kaupstefnunni auk annarra Íslendinga sem eru að kynna þróunarverkefni fyrir sjónvarp.

Frétt mbl.is: QuizUp „flaggskip“ NBS í Cannes

Þegar hefur verið greint frá því að ein stærsta sjónvarpsstöð Bandaríkjanna, NBC, ætli að framleiða 10 þátta seríu sem byggi á QuizUp. Þættirnir ganga þannig fyrir sig að þátttakandi í upptökuveri etur kappi við sjónvarpsáhorfendur sem sitja heima hjá sér og spila leikinn í snjalltækjum sínum. Ef þátttakandinn vinnur átta spurningalotur gegn átta ólíkum keppendum, sem geta verið staddir hvar sem er í landinu, þá geta þeir unnið háa fjárhæð. Ef einhverjir af andstæðingunum vinna sínar lotur, þá hljóta þeir upphæðina sem í boði var fyrir þá lotu.

QuizUp er vinsælasti stafræni spurningaleikur í heimi með rúmlega 75 milljónir notenda, þar af fjórar milljónir í Bretlandi. Leikurinn hefur komist í fyrsta sæti App Store í 128 löndum. Þættirnir eru afrakstur samstarfs NBC og íslenska tölvuleikjafyrirtækisins Plain Vanilla, framleiðanda QuizUp, og heita einfaldlega QuizUp ásamt nafni landsins þar sem sýna á þáttinn.

Í tilkynningu er haft eftir David Mortimer, framkvæmdastjóra hjá NBCUniversal International Studios, að sjónvarp hafi lengi beðið eftir spurningaþætti sem sé nógu spennandi til að fá stað á besta tíma í dagskránni og að QuizUp sé sá þáttur.

Þorsteinn segist ekki hafa átt von á því að sjónvarpsstöðvar myndu berjast um réttinn áður en útkoman hjá NBC yrði ljós. „En þetta sýnir hvað það er sterkt fyrir okkur að hafa svona öflugan samstarfsaðila við framleiðsluna eins og NBCUniversal International Studios.“

„Þeir eru með virkilega sterkt teymi hér í Cannes sem gaman er að vinna með. Bretland hefur ríka hefð fyrir spurningaþáttum og þar eru þættir sem hafa gengið í sjónvarpi áratugum saman. Við hlökkum til að sjá hvernig QuizUp UK á eftir að koma út,“ er haft eftir Þorsteini í tilkynningu.

Frétt mbl.is: QuizUp hluti af kvölddagskrá NBC

Skrifstofur Plain Vanilla.
Skrifstofur Plain Vanilla. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK