QuizUp „flaggskip NBC í Cannes“

Snemma á næsta ári er QuizUp spurningaþáttur væntanlegur á sjónvarpsstöðina …
Snemma á næsta ári er QuizUp spurningaþáttur væntanlegur á sjónvarpsstöðina NBC í Bandaríkjunum. Þátturinn verður sýndur á besta tíma þar í sjónvarpi. Photo: QuizUp

Í dag var tilkynnt um að íslenska tölvuleikjafyrirtækið Plain Vanilla og bandaríska sjónvarpsstöðin NBC hefðu farið í samstarf varðandi framleiðslu á nýjum spurningaþáttum sem munu bera nafn leiksins QuizUp og vera á besta tíma á dagskrá stöðvarinnar á næsta ári. „Ætli þetta séu ekki stærstu fréttirnar núna,“ segir Þorsteinn B. Friðriksson, framkvæmdastjóri félagsins, í samtali við mbl.is, en mikið hefur verið að gerast hjá félaginu að undanförnu.

„Með súrrealískari mómentum sem ég hef upplifað

Í síðustu viku var viðbótin My QuizUp kynnt til sögunnar og segir Þorsteinn að hún hafi gengið mjög vel. Í þessari viku hafi svo verið ákveðið að tilkynna um sjónvarpsþáttinn, en Þorsteinn segir að það sé tilviljun að þetta gerist allt á sama tíma. Þannig hafi viðræður við NBC tekið marga mánuði með tilheyrandi fundum og flugum fram og til baka frá Ameríku. „Þetta var mikið hopp á milli og margir fundir,“ segir hann.

NBC mun nota vörumerki QuizUp í nýja sjónvarpsþættinum og fyrr í sumar var Þorsteinn viðstaddur þegar tilraunaþáttur (e. Pilot) fór fram í upptökuveri í Los Angeles. „Það var með súrrealískari mómentum sem ég hef upplifað á ævinni,“ sagði Þorsteinn og bætti við að það að sjá risastórt QuizUp merki hangandi í upptökuverinu og mjög áhugasamt fólk keppa í leiknum hafi verið einstaklega skemmtilegt fyrir sig.

Spurningaþættir vinsælt sjónvarpsefni

Þorsteinn segir að spurningaþættir séu almennt mjög vinsælt sjónvarpsefni í Bandaríkjunum. Það helgist af því að þeir séu tiltölulega ódýrir í framleiðslu og þá séu áhorfendur mjög traustir. Þannig séu mjög mörg dæmi um spurningaþætti sem hafi verið í langan tíma á besta tíma og nefnir hann meðal annars þáttinn Hver vill verða milljónamæringur og Jeopardy! Hann segir gallann við þá þætti þó vera að áhorfendur séu að verða eldri og eldri og því hafi sjónvarpsstöðina vantað eitthvað nýtt.

Stígur Helgason sem er product manager yfir My QuizUp og …
Stígur Helgason sem er product manager yfir My QuizUp og Þorsteinn Baldur Friðriksson, framkvæmdastjóri og stofnandi Plain Vanilla kynntu í síðustu viku nýjustu viðbót leiksins. Eggert Jóhannesson

Með QuizUp þættinum verður að hans sögn blandað saman hefðbundnum sjónvarpsþætti og „tækni-app“ heiminum. Fólk mun geta spilað leikinn heima úr stofu, en sigurvegari þáttarins mun hljóta allt að eina milljón dali. Þessi blanda af appi og sjónvarpsheiminum er það sem gerir þetta spennandi og áhugavert að sögn Þorsteins. „Þetta verður ekki eins og hver annar spurningaleikur.“

Sýndur á besta tíma í Bandaríkjunum

Þátturinn verður sýndur klukkan átta um kvöld að bandarískum tíma næsta vor, en Þorsteinn segir að enn eigi eftir að koma nákvæmlega í ljós hvenær fyrsti þáttur verði sýndur. Segir hann þetta vera besta sjónvarpstímann og játar því að líkur séu á því að áhorfendur skipti milljónum.

Miklir fjármunir undir ef vel gengur

„Þetta mun veita okkur meiri athygli en nokkuð annað getur gert,“ segir Þorsteinn, en NBC mun setja talsverðan kraft í auglýsingar í tengslum við sjónvarpsþættina. Aðspurður um fjárhagslega hagsmuni fyrirtækisins af þessu segir Þorsteinn að það fái greitt beint fyrir fyrstu 10 þættina sem samið hefur verið um. Svo fari framhaldið allt eftir viðbrögðunum. Segir hann mikla fjármuni liggja í því ef þátturinn verður seldur til annarra landa eða ef sjónvarpsstöðin vilji fleiri þáttaraðir.

Þorsteinn segist þó ekki geta tjáð sig nákvæmlega um samningana og hvernig þeir eru byggðir upp og vísar til þess að NBC sé örugglega með þúsund lögfræðinga sem passi upp á að ekki sé greint nákvæmlega frá honum. Segir hann lögfræðilegu hliðina endurspegla ágætlega hvað þetta ferli hafi allt tekið langan tíma, en hann segist í fyrsta skipti hafa verið óöruggur í viðtölum við erlenda fréttamiðla eftir að þetta var kynnt. Hann hafi þurft að passa gríðarlega vel allt sem hann léti frá sér, sem væri allt önnur staða en þegar hann væri sjálfur að kynna QuizUp leikinn.

Opna mögulega skrifstofu í Los Angeles

Plain Vanilla mun vinna þættina náið með NBC, sérstaklega varðandi tæknihliðina. Segir Þorsteinn að möguleiki sé á því að fyrirtækið opni í kjölfarið starfsstöð í Los Angeles, en í ár opnaði fyrirtæki skrifstofu í New York.

Í næstu viku heldur þessi rússíbanaferð áfram, en þá mun Þorsteinn halda á eina stærstu sjónvarpsþáttahátíð heims sem haldin er í Cannes í Frakklandi. Þátturinn mun þar fá mikla athygli að sögn Þorsteins. „Þetta verður flaggskip NBC í Cannes,“ bætir hann við.

NBC hringdi fyrst í Plain Vanillia

Aðspurður hvernig það hafi komið til að QuizUp sé að verða að sjónvarpsþætti segir Þorsteinn að NBC hafi haft samband við þá af fyrra bragði. Þrátt fyrir það hafði þessi hugmynd legið í loftinu lengi innanhúss hjá QuizUp og Þorsteinn segir að hann hafi rætt við fjölda framleiðenda um verkefnið. Það hafi þó endað þannig að sjónvarpsstöðin hafi hringt í hann.

Þorsteinn á von á því að talsverð sprenging verði í fjölda notenda í Bandaríkjunum í kjölfar þess að þátturinn fari í loftið. „Það er eiginlega óhjákvæmilegt að það gerist,“ segir hann og segist búast við miklum auglýsingum í kringum þættina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK