Hagnaður BP helmingast

AFP

Hagnaður olíuframleiðandans British Petroleum, BP, næstum því helmingaðist á öðrum fjórðungi ársins. Ástæðan er fyrst og fremst lækkandi olíuverð og erfiðar aðstæður á olíumörkuðum.

Hagnaðurinn nam um 720 milljónum dala á ársfjórðungnum og dróst saman um 44% frá því á sama tíma í fyrra, þegar hann nam 1,3 milljörðum dala.

Fyrr í mánuðinum greindu forsvarsmenn BP frá því að lokakostnaður fyrirtækisins vegna olíuslyssins í Mexíkóflóa árið 2010 yrði 61,6 milljarðar dala. 

Eins og kunnugt er varð sprenging í olíuborpalli BP í Mexíkóflóa í aprílmánuði árið 2010. Ellefu verkamenn létu lífið og varð olíulekinn eitt mesta mengunarslys í sögu Bandaríkjanna.

Kostnaður fyrirtækisins vegna atviksins nam 5,2 milljörðum dala á öðrum ársfjórðungi.

Forsvarsmenn BP greindu jafnframt frá því í morgun að þeir hefðu í hyggju að draga úr fjárfestingum félagsins fyrir árið í heild. Verður ekki fjárfest fyrir meira en sautján milljarða dala á árinu.

Bob Dudley, forstjóri BP, sagði að lækkandi olíu- og gasverð hefði sett strik í reikninginn á tímabilinu. Krefjandi tímar væru framundan á olíumörkuðum, en markmið fyrirtækisins væri að haga rekstrinum þannig að olíuverð á hverjum tíma ætti ekki að hafa áhrif á afkomuna.

Heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði í morgun og hefur nú ekki verið lægra í þrjá mánuði.

Frétt mbl.is: Olíuverð ekki lægra í þrjá mánuði

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK