Danir hættir að nota lausn sem RB hyggst innleiða

Danskir bankar eru hættir að nota Swipp-greiðslulausnina sem RB hyggst taka upp við farsímagreiðslur í haust. Þeir nýta nú MobilePay sem Danske Bank þróaði. Til stóð að leggja niður starfsemi Swipp, sem var í eigu 71 banka þar í landi, en hætt hefur verið við þau áform.

„Það hefur verið fjárfest ríkulega í þróun og markaðssetningu á Swipp-lausninni. Í ljós kom að mögulegt er að selja tæknina til annarra landa en Danmerkur. Þess vegna vinnur fyrirtækið að því að opna söluskrifstofu um þessar mundir,“ segir Friðrik Þór Snorrason, forstjóri RB, í samtali við Morgunblaðið.

RB skrifaði nýlega undir samstarfssamning við danska félagið Swipp um innleiðingu lausnar sem gerir einstaklingum kleift að nýta farsímann til að greiða í verslun, millifæra og innheimta greiðslur.

Greitt með farsíma

Hann segir að RB hafi valið Swipp fram yfir MobilePay vegna þess að Swipp brúi bilið frá farsímanum yfir á innlánareikning notenda, sem er mun hagkvæmari og skilvirkari leið. En MobilePay noti greiðslukort til miðlunar greiðslna. „MobilePay áformar hins vegar að flytja sig yfir á sambærilegar greiðslurásir og Swipp þróaði, en sú lausn er einfaldlega ekki í boði í dag,“ segir Friðrik.

„Í samstarfinu vinnum við að áframhaldandi þróun á frumkóðanum og eigum möguleika á að selja áfram til annarra þær viðbætur sem við þróum fyrir kerfið. Það sem við horfum til við innleiðingu á lausninni er að með henni fáum við aðgengi að viðskiptareglum sem gilda á milli þeirra sem veita tækniþjónustuna, bankanna, einstaklingsins og verslunarinnar og þeirrar ábyrgðar sem hver og einn axlar í samstarfinu. Sömuleiðis býr Swipp að öflugu bakendakerfi á milli fjármálastofnana og verslana. Í sjálfu sér er auðvelt að forrita greiðsluapp en það sem flækir vinnuna er viðskiptaskilmálarnir og þróun bakenda. Þess vegna kusum við að hefja þetta samstarf,“ segir Friðrik Þór.

Spurður hvers vegna dönsku fyrirtækin hafi hætt að nýta Swipp-lausnina segir hann að þróunin í Danmörku, Svíþjóð og Noregi hafi verið á þá leið að bankar sameinist um eina lausn. „MobilePay var með meiri markaðshlutdeild en Swipp. Það kann að skýrast af því að MobilePay var ýtt fyrr úr vör. Bankarnir kusu því að nýta sterkara vörumerkið,“ segir Friðrik Þór.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK