Biggest Loser sigurvegari segir sína hlið

Jóhanna Elísa Svendsen Engelhartsdóttir sigraði íslensku útgáfuna af Biggest Loser.
Jóhanna Elísa Svendsen Engelhartsdóttir sigraði íslensku útgáfuna af Biggest Loser.

Jóhanna Elísa Svendsen Engelhartsdóttir sigraði í íslensku útgáfunni af Biggest Loser í fyrra en þættirnir voru sýndir á SkjáEinum. Nú er sería tvö komin í loftið og segir Jóhanna frá sinni upplifun á Facebook-síðu sinni: „Við fundum aldrei fyrir öðru en mikilli velvild og stuðningi frá bæði þjálfurunum og öllu öðru starfsfólkinu sem kom að þáttunum.

Við vorum fjarri fjölskyldu og vinum í 10 vikur og máttum ekki hafa samband við þau. En í þeim tilfellum þar sem þess þurfti þá var okkur auðvitað leyft að hafa samband eða fjölskyldan hafði samband við starfsmenn þáttarins og komst þannig í samband við okkur. Tilgangurinn með þessu sambandsleysi er sá að þá gátum við einbeitt okkur algjörlega að þessu verkefni og „kúplað“ okkur frá öllu daglega fjölskylduamstrinu og áhyggjunum sem því fylgir.

Það að verið sé að brjóta fólk niður er svo fjarri sannleikanum að það hálfa væri... einmitt þvert á móti var verið að byggja okkur upp. Áhorfendur sjá auðvitað bara eina klukkustund af heilli viku og vita lítið hvað gengur á þess á milli. Hér er verið að gera sjónvarpsefni og auðvitað eru mest krassandi hlutarnir sýndir. Annars myndi enginn nenna að horfa. Greyið Gurrý gerð að grýlu fyrir að reyna að vera ströng, en hún er einmitt þvert á móti, það vita allir sem þekkja hana.

Mataræðið var ekkert í líkingu við það sem lýst er í USA-útgáfunni. Ég hugsa að við höfum verið að borða um 1.500 kcal á dag. Við töldum ekki ofan í okkur kaloríurnar. Við borðuðum 3 máltíðir á dag, plús millimál. Eini dagurinn sem ég var svöng af þessum 10 vikum var 1. dagurinn.

Við æfðum 4 sinnum á dag, af þessum 4 æfingum var aðeins 1 sem virkilega keyrði okkur út en hinar voru brennsluæfingar þar sem hver og einn vann eftir eigin getu.
Fólk verður að gera sér grein fyrir að við gerðum ekkert annað á þessum tíma en að æfa, borða og sofa. Og hvað eru 4 klst. af æfingum af 12 tíma vöku, þegar ekkert annað er gert aukalega en að liggja og safna orku?

Ef fólk fann fyrir eymslum eða sársauka var það ekki pínt til að gera það sem það treysti sér ekki í. Heldur var því leyft að jafna sig eins og þurfti.

Ég missti alveg helling af hári á meðan á þessu þyngdartapi stóð, en það er allt komið aftur. Ég hef aldrei á minni ævi borðað eins og hollan og fjölbreyttan mat, passaði að taka öll vítamín og lýsi svo ég myndi nú örugglega ekki líða neinn skort. En auðvitað er það gríðarlegt álag á líkamann að tapa 50 kg+ og viðbúið að eitthvað gefi eftir.

Áhorfendur eiga mjög erfitt með að setja sig í okkar spor. Hvernig getið þið fullyrt að verið sé að brjóta fólk niður? Auðvitað þarf að kíkja inn á við og leita að ástæðum þess að maður leitar í mat þegar manni líður illa. Biggest Loser er ekki eini þátturinn í heiminum sem fær fólk til að ræða sín vandamál og kryfja þau. Þó að um feitt fólk sé að ræða er það ekki meiri niðurlæging en þegar granna stelpan talar um erfiða æsku. Við bárum vandamálin utan á okkur. Og þurftum að gera eitthvað róttækt í okkar málum.

Auðvitað má lengi deila um hvort það sé rétt að hvetja til svona gríðarlegs þyngdartaps á svona skömmum tíma og hvort það sé vænlegt til frambúðar. Í þáttunum missti ég að meðaltali 2,8 kg á viku. 2,8 kg hljómar kannski mikið en þegar maður gerir ekkert annað en að æfa, borða og hvílast er það ekki óraunhæft. Þegar heim kom missti ég að meðaltali 1,3 kg á viku. Talað er um að eðlilegt sé að missa hálft til eitt kg á viku þegar maður tekur sig á, ég var rétt fyrir ofan þá tölu enda æfði ég meira en eðlilegt getur talist. Ég æfði þó aldrei þannig að það gengi nærri mér og passaði upp á að fá næga hvíld. Ég fór að sofa á sama tíma og börnin mín og horfði ekkert á sjónvarp á meðan á þessu stóð. Ég borðaði um 1.600 kcal á dag, það var einungis síðustu 4 vikurnar sem ég skar meira niður í mataræðinu en þar var keppnisskapið farið að hafa mikið að segja.

Eftir að þættinum lauk bættum við öll á okkur kg aftur, mismikið auðvitað. En það er eðlilegt þegar fólk hefur lést mikið og slakar síðan á í sínu prógrammi, án þess að fara í sama farið aftur, að líkaminn leitast við að bæta upp tapaða þyngd. Það tekur tíma að komst í jafnvægi og finna þá rútínu sem hentar hverjum einum til að viðhalda réttri þyngd án þess að þyngjast.
Ég vigta mig vikulega, það þarf ég að gera til að halda mér í skefjum. Ég átti í óeðlilegu sambandi við mat áður en ég hóf þessar breytingar og það samband hefur ekki breyst. Matur verður alltaf minn veikleiki en ég hef lært að takast á við við þessar hugsanir og berjast á móti þeim en þær eru enn til staðar. Þetta er vandamál sem ég mun glíma við alla ævi.

Hvort sem ég eða aðrir þátttakendur förum í sama farið aftur, eins og svo margir sem lést hafa mikið gera, þá þurfum við ekki þessar leiðinlegu athugasemdir frá fólki eða neikvæðni. Einmitt þvert á móti, klapp á bakið er gerir kraftaverk,“ segir Jóhanna. 

Svona lítur Jóhanna út í dag. Hún segist örlítið hafa …
Svona lítur Jóhanna út í dag. Hún segist örlítið hafa bætt á sig en það skipti engu máli því henni líði vel.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál