Nýskilin og hefur aldrei haft meiri kynlífslöngun

Ragnheiður Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur svarar lesendum Smartlands Mörtu Maríu.
Ragnheiður Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur svarar lesendum Smartlands Mörtu Maríu. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Nýfráskilin kona spyr hvers vegna hún hafi svona mikla löngun í kynlíf eftir skilnaðinn. Ragga Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur á raggaeiriks.com svarar spurningum lesenda.

Sæl Ragga

Ég er tæplega fertug kona, nýskilin fyrir rúmu ári. Skilnaðurinn var mjög erfiður fyrir mig andlega og var ég nokkurn tíma að komast yfir hann, held reyndar að ég sé enn ekki búin að jafna mig. En aftur á móti þá fór ég fljótlega að sofa hjá öðrum mönnum, já ég sagði það: öðrum mönnum. Þeir hafa verið margir eða s.s. 10 menn. Ég hef verið með ódreplega löngun í kynlíf síðan ég skildi. Samt var kynlíf okkar hjónanna mjög fínt. Getur þú sagt mér hvers vegna ég hef svona mikla löngun í kynlíf? Getur það verið vegna þess að ég er enn að jafna mig eða er það kannski löngun í meiri athygli frá karlmönnum? Vantar mig ást eða umhyggju? Er ég einmana? Ég hreinlega veit það ekki sjálf.

Með fyrirfram þökkum
Stella

Sæl kæra Stella

Velkomin í hóp nýskilinna kvenna. Eins og þú segir sjálf ertu NÝSKILIN, ár er ekki langur tími og algjörlega eðlilegt að þú upplifir þig í einhverju ójafnvægi og að tilfinningar séu ekki skýrar svona stuttu eftir. Margir segja að það taki 2 ár að komast yfir skilnað, ein vinkona mín, sem ég átti hughreystingarsamtal við skömmu eftir minn skilnað, tók svo sterkt til orða að það væru akkúrat tvö ár upp á dag sem þyrfti til að komast aftur í jafnvægi og út úr móðunni. Hún upplifði það þannig eftir sinn skilnað. Ég veit samt ekki hvort hægt er að mæla þetta í dögum eða klukkutímum, en það er nokkuð víst að meiriháttar breytingar á högum og lífsmunstri hafa mikil áhrif á líðan okkar. Það hjálpar stórkostlega að létta á huganum, eiga trúnaðarsamtöl við vini eða vinkonur eða kaupa sér nokkra sálfræðitíma - þeim peningum er vel varið. En að áhyggjum þínum af kynorkunni og hjásofelsinu. Ég get engan veginn svarað því hvers vegna þú velur að lifa þínu kynlífi eins og þú gerir en ég get velt upp einhverjum pælingum. Ef það er mikilvægt fyrir þig að skilja betur eða breyta þarftu að leggjast í dýpri sjálfsvinnu en hægt er að gera með bréfaskriftum í litla dálkinn minn. Ef þú tekur þrjú skref afturábak og spáir í fjöldann og tímann er þetta nú ekkert svakalegt, minna en einn á mánuði! Það þætti frekar slappt í einkvænissambandi, og núna ert þú á lausu, fullorðin manneskja með ríka þörf fyrir kynlíf - það er algjörlega þitt að velja hverjum þú sefur hjá, hversu oft og hvort þú yfir höfuð sefur hjá sama manninum oftar en einu sinni.

Það getur verið að kynlífslöngunin tengist nýfengnu frelsi, núna ert það þú sem stjórnar þínu kynlífi og ef kynlífið í sambandinu þínu var lítið eða ekkert spes getur þessi tilfinning verið mjög sterk og dásamleg. Þú ert að enduruppgötva þig sem kynveru á allt öðrum forsendum en áður - þú hefur meiri þroska og  ég vona að sjálfsmynd þín hafi styrkst og vaxið með aldrinum.

Þess vegna ertu mögulega að upplifa kynlíf öðruvísi núna en áður - þú veist hvað þú vilt og sinnir þínum þörfum. Það er heldur ekkert undarlegt við að njóta þess að fá athygli frá karlmönnum (eða fólki yfir höfuð) - flestir hafa þörf fyrir viðurkenningu og hrós - og svo framarlega sem þú notar athyglina til að byggja þig upp á jákvæðan máta er ekkert að því að slaka á, anda djúpt og njóta. Athyglin er fyrir sjálfsmyndina eins og dýfa á ísinn eða aukaostur á pizzuna - undirlagið skiptir öllu máli en viðbótin gerir heildarmyndina aðeins meira djúsí. Kannski ertu einmana og kannski vantar þig umhyggju og ást - allar þessar tilfinningar eru sammannlegar, við finnum öll fyrir einmanaleika á stundum, meira að segja þeir sem eru í samböndum og umvafðir fjölskyldu og vinum flestum stundum. Kannski er þetta meira að segja ástæðan fyrir því að við kunnum að meta það góða í lífinu - ef aldrei væri einmanaleiki mundum við ekki hafa samanburð og ekki njóta samveru eins mikið.

Kúnstin er að haga lífinu þannig að erfiðu tilfinningarnar taki ekki yfir. Það er hægt að nota ótalmargar leiðir til að auka magn góðu tilfinninganna í lífinu - hugleiðslu, jóga, gönguferðir, dans, kynlíf, lestur bóka, hangs með vinum… spáðu í þínar leiðir og hvað þér finnst gott svo að þú lendir ekki í að nota BARA kynlíf til að líða vel. Þú vilt hafa fleiri en eitt tól í þinni tilfinningalegu verkfærakistu!

Ég vona að þetta svar hjálpi á einhvern hátt og óska þér alls góðs!

Svakalega hlýlegt skilnaðarkonuknús,

Ragga

Ragnheiður Eiríksdóttir

www.raggaeiriks.com

www.raggaknits.com

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Röggu spurningu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál