Er hægt að kveikja neista á ný?

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð, svarar spurningum lesenda. Hér fær hann spurningu um kulnaðan ástareld. 

Sæll Valdimar,

hvað getur maður gert þegar allir ástareldar eru kulnaðir? Ég og maðurinn minn höfum verið saman í yfir 20 ár og eigum við 3 börn.

Lífið hefur ekki verið neinn dans á rósum og við fengum það verkefni í lífinu að eignast börn með fatlanir. Það hefur óneitanlega tekið sinn toll á sambandið þar sem við höfum ekki haft mikinn stuðning.  Ég elska manninn minn en í dag elska ég hann eins og ég elska aðra fjölskyldumeðlimi. Það er enginn neisti og ég hef engan áhuga á honum kynferðislega.  Við erum sterkt teymi, styrkjum hvort annað í erfiðleikum og höfum komið okkur upp góðu og öruggu heimili og fjárhagi. Það er svo sárt að standa uppi með þessa líðan og þurfa að taka ákvörðun sem myndi taka frá mér þennan styrk sem maðurinn minn er, örugga heimili og góðan fjárhag (ég hef verið heimavinnandi að mestu og hann hefur verið fyrirvinnan). Af þeirri ástæðu hef ég og við reynt ýmislegt til að rækta sambandið síðustu árin en ekki tekist að kveikja á þeim tilfinningum sem mér finnst að maður eigi að hafa í garð maka og smátt og smátt er það farið að skemma út frá sér að geta ekki gefið honum þá nánd sem hann vill.

Er einhver von eða er kominn tími til að sætta sig við veruleikann eins og hann er í dag?

Kveðja,

Ein mjög sorgmædd og ráðvillt.

Góðan daginn og takk fyrir spurninguna.

Það er ekki óalgengt að sambönd líði á ákveðinn hátt fyrir krefjandi verkefni á borð við þau sem þú nefnir. Fókusinn fer af eðlilegum ástæðum fyrst og fremst á verkefnið sjálft en á meðan er hætt við að lítið sé um að sambandið sem slíkt sé ræktað. Þar af leiðandi verður niðurstaðan oft sú sem þú nefnir, að þegar upp er staðið þá er lítil inneign í sambandinu og erfitt getur reynst að virkja það sem áður var. Þið eigið ómetanlegt verkefni að baki og hafið greinilega gert vel í sambandi við ákveðin grunnatriði sem tengjast öruggu heimili fyrir ykkur og börnin.

Þar sem þið hafið reynt ýmislegt eins og þú segir til þess að glæða neistann á ný þá er spurningin hvað þið hafið reynt? Hversu langt hafið þið gengið?

Það getur reynst vel að fara í grunninn að því leytinu til að rifja upp tímann frá upphafi sambandsins og gá hvort þar leynast einhverjar glæður sem hægt væri að blása í. Spyrjið hvort annað spurninga í sambandi við það hvenær ástareldurinn logaði síðast. Ræðið í framhaldi af því hvað þið voruð að gera þá, og ekki síður, hvað eruð þið að gera í dag sem þið voruð ekki að gera þá? Oft og tíðum er kynferðisleg löngun stór hluti af aðlöðun í upphafi sambands og ef sú löngun er slokknuð að miklu leyti þarf gjarnan að „endurræsa“ kerfið. Það getur falið í sér að gera nýja hluti, eða endurvekja það sem tíðkaðist í tilhugalífinu. Verið óhrædd við að fara út fyrir þægindarammann í þessari viðleitni, en styðjið hvort annað til þess. Þið hafið í raun engu að tapa, allt að vinna.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson – ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál