Björn Steinbekk opnaði sig um ofbeldið

Björn Steinbekk, framkvæmdarstjóri SónarReykjavík.
Björn Steinbekk, framkvæmdarstjóri SónarReykjavík. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Björn Steinbekk rataði í fréttir á sunnudaginn þegar miðar sem hann hafði selt Íslendingum á leik Íslands og Frakklands á EM skiluðu sér ekki. Árið 2014 tók Erla Hlynsdóttir ritstjóri viðtal við Björn fyrir Fréttatímann. Þar sagði hann frá ofbeldi sem hann varð fyrir í æsku: 

„Ég tek ekki þátt í neinu tilfinningaklámi. Ég er ekki að biðja um vorkunn. Það þarf enginn að vorkenna mér,“ segir Björn Steinbekk, tónleikahaldari, þegar við setjumst niður til að ræða ofbeldið sem hann var beittur í æsku og hvernig hann hefur unnið úr því. Björn skrifaði pistil á Facebook í vikunni þar sem hann greindi í fyrsta skipti opinskátt frá ofbeldinu en áður vissu aðeins nánir vinir hans af því. Pistillinn vakti gríðarlega athygli, rataði á vefsíður fjölmiðla og kom það Birni nokkuð á óvart þegar margir bentu honum á að fáir karlmenn hefðu áður stigið fram með slíka reynslu. „Ég hafði ekki hugsað út í það. Ég skil ekki af hverju karlmenn ættu síður að tala um svona reynslu. Mér finnst það ekki gera mig veikari að segja frá þessu heldur þvert á móti. Mér finnst ég sterkari fyrir vikið.“

Björn er giftur þriggja barna faðir og starfar sem framkvæmdastjóri tónlistarhátíðarinnar Sónar Reykjavík. Fyrir fjórtán árum fór hann í meðferð og hætti að drekka, hann taldi sig hafa unnið sig frá erfiðri reynslu í æsku en komst að því að hún hefur enn áhrif á líf hans.

„Fyrir um ári varð ég mjög þunglyndur, ég hafði verið undir miklu álagi og bara missti tökin. Ég hafði verið vanur að vakna snemma á morgnana og koma börnunum í skólann en þarna bara nennti ég ekki fram úr rúminu. Ég fylltist svakalegri vanlíðan, fór að fara meira á AA-fundi en það var ekki nóg. Ég fór á endanum til sálfræðings sem las mig alveg og sagði mér að ofbeldið sem ég var beittur í æsku væri enn að hafa áhrif á líf mitt, þrátt fyrir að ég hefði haldið að ég væri búinn að afgreiða það. Ég fór þá aftur í algjöra endurskoðun og fór yfir hvernig ég hef hagað mér. Ég hef aldrei beitt fólk líkamlegu ofbeldi en ég hef sannarlega beitt fólk andlegu ofbeldi, bæði áður og eftir að ég hætti að drekka. Ég hef ekki alltaf viljað vera sá maður sem ég er en allt snýst þetta um að komast til botns í því hvernig ég get lifað í sátt og samlyndi við sjálfan mig og annað fólk. Ég bara upplifi svo sterkt hvað þessi lífsreynsla hefur stjórnað miklu í mínu lífi.“

HÉR er hægt að lesa viðtalið í heild sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál