Kristján: Gríðarlega erfitt

Kristján ásamt Guðmundi Steinarssyni sem skoraði fyrra mark Keflvíkinga í …
Kristján ásamt Guðmundi Steinarssyni sem skoraði fyrra mark Keflvíkinga í dag. mbl.is/Eggert

Aðstæður á Fjölnisvelli í dag voru afar erfiðar þegar Fjölnir og Keflavík áttust við í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, var stoltur af sínum mönnum sem unnu mikilvægan 2:1-sigur og halda því efsta sæti deildarinnar.

„Þetta var erfiður leikur og alveg gríðarlega erfiðar aðstæður enda völlurinn rennandi blautur og þegar búið að spila á honum heilan leik í dag. Ekki bætti svo rigningin og vindurinn úr skák, svo ég tali nú ekki um erfiða andstæðinga. Þetta var mjög erfitt og Fjölnisliðið er þannig lið að það gefst aldrei upp eins og við sáum í bikarnum um daginn,“ sagði Kristján.

„Ég er mjög ánægður með liðið og hópinn. Okkur gekk ágætlega að halda boltanum niðri og spila og inn á milli kýldum við boltann fram, og þessi blanda gekk ágætlega upp,“ bætti Kristján við, og hann vill ekki horfa of langt fram í tímann heldur einblína á næsta leik sem er gegn Breiðabliki í Keflavík á miðvikudaginn.

„Það eru þrír erfiðir leikir eftir og sá næsti er gegn Breiðablik, sem er með mjög gott fótboltalið. Við vitum ekkert hvernig staðan verður þegar við mætum FH þar á eftir og hugsum ekkert um það.“

Ítarleg umfjöllun um leikinn ásamt fleiri viðtölum verður í 12 síðna íþróttablaði Morgunblaðsins á mánudaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert