Yfirlýsing frá Arnari Sveini

Arnar Sveinn Geirsson, til vinstri.
Arnar Sveinn Geirsson, til vinstri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Sveinn Geirsson sendi frá sér yfirlýsingu sem birt er á heimasíðu Vals í kjölfarið á atviki sem átti sér stað í leiks Vals og Fram í Pepsi-deildinni í fyrrakvöld. Arnar Sveinn fékk rautt spjald undir lok leiksins og var í gær úrskurðaður í tveggja leikja bann á fundi Aga- og úrskurðarnefndar KSÍ.

Yfirlýsingin frá Arnari Sveini

„Vegna mikillar umræðu og úrskurðar aganefndar KSÍ um atvik sem átti sér stað í leik Vals og Fram á Laugardalsvelli sl. mánudag sé ég, Arnar Sveinn Geirsson leikmaður Vals, mig knúinn að gefa út yfirlýsingu og árétta nokkra hluti.

Fyrst vil ég lýsa yfir vonbrigðum mínum á niðurstöðu aganefndarinnar. Með því að dæma mig í tveggja leikja bann eru þeir að segja að um viljaverk sé að ræða, þar sem að einn leikur er eðlileg refsing fyrir það að fá rautt spjald. Mér þykir einnig úrskurðurinn heldur undarlegur, þar sem að mér þætti tveggja leikja bann virkilega lítil refsing fyrir það að ætla viljandi að traðka á andlitinu á einhverjum. Því finnst mér eins og um eins konar salómonsdóm sé að ræða. Sú niðurstaða sem aganefndin kemst því að get ég engan veginn sætt mig við, því þetta eru engar smá ásakanir.

Ég ítreka það sem nú þegar hefur komið fram í fjölmiðlum að um algjört óviljaverk sé að ræða. Eins og sjá má í upptökum af atvikinu, þá hef ég enga vitund um það hvert ég er að stíga þar sem ég horfi aldrei niður.  Annað atriði sem sjá má er að ég geri mér litla sem enga grein fyrir því hvað gerðist og held áfram í þá átt sem ég var að hlaupa. Það er því augljóslega hægt að sjá á öllum mínum viðbrögðum að um algjört óviljaverk er að ræða.

Það sem ég er sakaður um m.a. af dómara, nokkrum fjölmiðlamönnum og aganefnd KSÍ er í raun að hér sé um hreina og beina líkamsárás að ræða og það mjög alvarlega líkamsárás. Að ég hafi ætlað mér að traðka á höfðinu á viðkomandi. Þetta er auðvitað algjörlega fráleitt. Mér þykir erfitt að sitja undir svoleiðis ásökunum einfaldlega vegna þess að um algjört óviljaverk var að ræða og algjörlega fjarri því sem mér myndi nokkurn tíman detta í hug að gera. Það er í raun með ólíkindum að einhver ætli manni svona alvarlegt ofbeldisverk. Með því hefur verið vegið alvarlega að minni æru.

Ef Almarr skaðaðist á einhvern hátt við þetta óhapp bið ég hann að sjálfsögðu afsökunar.

Með Valskveðju,
Arnar Sveinn Geirsson

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert