Stíga KR-ingar skrefi nær meistaratitlinum?

KR-ingar fagna marki gegn Eyjamönnum.
KR-ingar fagna marki gegn Eyjamönnum. mbl.is/Ómar Óskarsson

KR-ingar geta stigið enn stærra skref í átt að 26. Íslandsmeistaratitli sínum í knattspyrnu karla og Stjarnan getur komist upp fyrir FH í annað sætið í Pepsi-deildinni og þar með komið sér í góða stöðu að ná Evrópusæti í fyrsta skipti í sögu félagsins.

10. umferð Pepsi-deildarinnar lýkur í kvöld þegar KR og Valur eigast við í Frostaskjólinu klukkan 18 og á sama tíma eigast Breiðablik og Stjarnan við á Kópavogsvelli en þessum leikjum var frestað í sumar vegna þátttöku KR og Breiðabliks í Evrópukeppninni.

KR náði undirtökunum í baráttunni um titilinn með því að leggja Íslandsmeistara FH að velli um síðustu helgi og takist þeim að leggja Valsmenn að velli í kvöld komast lærisveinar Rúnars Kristinssonar í ansi vænlega stöðu en KR er með 37 stig í efsta sæti, FH er með 36 en hefur spilað tveimur leikjum meira og Stjarnan er með 34 og hefur spilað einum leik meira en KR.

Blikarnir þurfa sigur

Breiðablik þarf svo sannarlega á öllum stigunum að halda í leiknum gegn Stjörnunni. Blikarnir eru í fjórða sæti, fimm stigum á eftir Garðbæingum en eiga leik til góða. Breiðablik hefur farið illa að ráði sínum í síðustu tveimur leikjum en heimsóknir Kópavogspilta á Vesturlandið skiluðu þeim aðeins tveimur stigum því Blikarnir gerðu jafntefli við ÍA og Víking Ólafsvík.

Með sigri koma Stjörnumenn sér í ansi vænlega stöðu í baráttunni um að ná Evrópusæti, sem Garðabæjarliðið þráir svo heitt. Það er slæmt fyrir Stjörnumenn að Veigar Páll Gunnarsson verður fjarri góðu gamni þar sem hann er í leikbanni og þá er Kennie Chopart ekki leikfær vegna meiðsla. Atli Jóhannsson og Michael Præst eru hins vegar klárir í slaginn eftir að hafa tekið út leikbann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert