Ísland í svipaðri stöðu fyrir tíu árum

Indriði Sigurðsson í opnu færi við mark Þjóðverja í leiknum …
Indriði Sigurðsson í opnu færi við mark Þjóðverja í leiknum í Hamborg fyrir tíu árum. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Fyrir nákvæmlega tíu árum var íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu í svipaðri stöðu og það er í núna fyrir leikinn gegn Norðmönnum á Ullevaal í Ósló í kvöld.

Þá mættust Þýskaland og Ísland í hreinum úrslitaleik um sæti í lokakeppni Evrópumótsins 2004, í lokaumferð riðlakeppninnar í Hamborg, og fyrir leikinn átti Ísland líka ágæta  möguleika á að komast í umspil þó leikurinn myndi tapast.

Ísland tók á móti Þýskalandi í næstsíðasta leik sínum í riðlakeppninni á Laugardalsvellinum 6. september 2003. Liðin voru í tveimur efstu sætunum, Ísland einu stigin á undan en Þjóðverjar áttu leik til góða.

Þýska stálið slapp vel með 0:0 jafntefli á Laugardalsvelli. Ísland fékk mörg góð færi í leiknum, Eiður Smári Guðjohnsen, Heiðar Helguson og Lárus Orri Sigurðsson þau bestu. Þjóðverjar hittu aðeins tvisvar á íslenska markið allan tímann og voru harðlega gagnrýndir fyrir frammistöðu sína í leiknum, sem þótti ekki ásættanleg heima í Þýskalandi.

Eftir leikinn var Ísland með 13 stig, Þýskaland 12 og Skotland 11 stig í þremur efstu sætunum. Fjórum dögum síðar unnu svo Þjóðverjar sigur á Skotum, 2:1, og voru því með 15 stig, Ísland 13 og Skotland 11 fyrir síðustu umferðina. Ísland var með fimm mörk í plús en Skotland þrjú.

Þýskaland og Ísland mættust svo í hreinum úrslitaleik í Hamborg 11. október. Þjóðverjar unnu all öruggan sigur, 3:0, og voru þar með komnir á EM í Portúgal. Ísland var þó vel inni í leiknum, Indriði Sigurðsson var nærri því að jafna metin í 1:1 og snemma í seinni hálfleik, á meðan staðan var 1:0, var mark dæmt af Hermanni Hreiðarssyni, sem þótti afar umdeildur dómur.

Ísland virtist þó lengi vel á leið í umspilið en á sama tíma léku Skotar við Litháa í Glasgow. Þar gerðist það að ungur piltur frá Manchester United, Darren Fletcher að nafni, kom inná  sem varamaður og tryggði Skotum sigur, 1:0, þegar 20 mínútur voru eftir. Þeir komust þar  með uppfyrir Íslendinga og fóru í umspilið en íslenska liðið sat eftir með sárt ennið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert