Birkir Bjarnason sagður veiki hlekkurinn

Króatarnir munu eflaust fljótt átta sig á að Birkir Bjarnason …
Króatarnir munu eflaust fljótt átta sig á að Birkir Bjarnason er ekki veikur hlekkur í neinu liði - þvert á móti! mbl,is/Golli

Króatíski vefmiðillinn jutarnji.hr er bjartsýnn fyrir umspilsleiki króatíska fótboltalandsliðsins gegn Íslandi en í grein þess í dag segir hann aðeins tvo Íslendinga mögulega komast í byrjunarlið Króatíu.

Það eru þeir Ari Freyr Skúlason, sem gæti tekið stöðu Joseps Simunic í vinstri bakverðinum, en ástæðan fyrir því, að mati Króatanna, er að Ari er yngri, fljótari og spilar reglulega þá stöðu.

Þá gæti Gylfi Þór Sigurðsson einnig átt sæti í króatíska byrjunarliðinu þar sem hann er eini leikmaðurinn sem vanur er leikjum í hæsta gæðaflokki, segir í greininni.

Lítið annað er hægt að gera en að brosa þegar Birkir Bjarnason er kallaður veiki hlekkurinn í liðinu en hann er sagður ekki vera í neinu formi og spurningarmerki hvort hann haldi sæti sínu í byrjunarliðinu. Króatarnir fá bara að kynnast Birki betur annað kvöld.

Eiður Smári er sagður sýna þess merki að vera kominn á gamalsaldur en Alfreð Finnbogasyni er hrósað fyrir velgengni sína í Hollandi og spáð að hann verði brátt kominn í ensku úrvalsdeildina.

Samkvæmt útreikningum jutarnji er króatíska liðið sex sinnum dýrara en það íslenska og tvær skærustu stjörnur liðsins, Luka Modric, leikmaður Real Madrid, og Mario Mandzukic, framherji Bayern München, eru saman verðmætari en allt byrjunarlið Íslands. Svo er bara sjá hvort það hjálpi Króatíu annað kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert