Glæsilegur sigur á Tyrkjum í fyrsta leik

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hóf undankeppni EM 2016 með glæsibrag á Laugardalsvelli í kvöld þar sem liðið vann 3:0-sigur á sterku liði Tyrklands. Jón Daði Böðvarsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson skoruðu mörkin. Tyrkir misstu mann af velli með rautt spjald hálftíma fyrir leikslok.

Næsti leikur Íslands í keppninni er gegn Lettlandi á útivelli þann 10. október, og Ísland mætir svo Hollandi á heimavelli 13. október.

Ísland átti frábæran fyrri hálfleik og skapaði sér fullt af færum á meðan að Tyrkjum gekk illa að ógna marki Íslands. Jón Daði hafði sig mikið í frammi á upphafsmínútunum, skapaði færi fyrir félaga sína og átti skalla af stuttu færi í þverslá. Hann sýndi svo viðbragð kattarins þegar hann skoraði með skalla eftir að Onur Kivrak markvörður Tyrkja blakaði boltanum til hliðar eftir hornspyrnu Gylfa.

Kolbeinn var nálægt því að koma Íslandi í 2:0 eftir hálftíma leik með skot af stuttu færi sem var varið, og Birkir Bjarnason átti skalla í hliðarnetið eftir góða fyrirgjöf Ara Freys Skúlasonar. Arda Turan átti bestu marktilraun Tyrkja í fyrri hálfleik rétt undir lokin en Hannes Þór Halldórsson varði gott skot hans utan teigs.

Ísland var áfram sterkari aðilinn í seinni hálfleik og Jón Daði átti skot rétt framhjá úr góðu færi á 54. mínútu. Fimm mínútum síðar vænkaðist hagur Íslands enn þegar Ömer Toprak fékk sinn annað gula spjald og þar með rautt. Toprak fékk fyrra spjaldið fyrir að toga Jón Daða niður í skyndisókn, og það seinna fjórum mínútum síðar fyrir að stöðva sókn með því að handleika knöttinn. Tyrkir voru æfir yfir dómnum sem þó virtist hárréttur.

Úr aukaspyrnunni sem dæmd var við rauða spjaldið fékk Ísland svo enn eitt góða færið en spyrna Gylfa fór í átt að fjærstönginni þar sem Kolbeinn átti þrumuskalla sem Kivrak varði meistaralega.

Tyrkir fengu algjört dauðafæri til að jafna metin á 70. mínútu þegar Burak Yilmaz fékk sendingu yfir íslensku vörnina en hann skaut einhvern veginn yfir af stuttu færi. Í kjölfarið gerði Ísland út um leikinn.

Gylfi og Kolbeinn skoruðu með mínútu millibili þegar um korter var til leiksloka. Gylfi, sem lék eins og kóngur í þessum leik, skoraði með frábæru skoti rétt utan teigs sem Kivrak náði næstum að verja en boltinn lak inn fyrir marklínuna. Kolbeinn fékk svo stórkostlega, langa sendingu frá Ara Frey inn fyrir vörnina hægra megin og skilaði boltanum af sinni alkunnu snilld í fjærhornið.

Manni færri reyndu Tyrkir að klóra í bakkann en leikurinn fjaraði smám saman út og strákarnir okkar fögnuðu dísætum og afar sannfærandi sigri.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is og viðtöl koma inn á vefinn síðar í kvöld. Fjallað verður ítarlega um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

Ísland 3:0 Tyrkland opna loka
90. mín. Jón Daði Böðvarsson (Ísland) fer af velli Jón Daði er búinn að vera frábær í þessum leik. Hann hefur sýnt og sannað að hann á heima í þessu liði.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert