„Við vorum á hælunum“

Heimir Guðjónsson og Davíð Þór Viðarsson
Heimir Guðjónsson og Davíð Þór Viðarsson mbl.is / Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, var vitanlega ekki sáttur með spilamennsku FH liðsins sem tapaði fyrir Val í þriðju umferð Pespi deildar karla á Vodafone-vellinum í kvöld. Lokatölur í leiknum í kvöld urðu 2:0 og Davíð Þór fannst FH liðið andlaust í leiknum í kvöld.

„Við vorum gersamlega á hælunum í leiknum hér í kvöld. Við vorum þokkalegir svona fyrsta korterið og hefðum getað laumað inn einu marki þá. Svo bara gerist eitthvað sem að ég hef enga skýringu á því að þá hefðum við náð að bregðast við því inni á vellinum. Við vorum bara eftir á í öllum okkar aðgerðum í þessum leik. Þeir voru grimmari en við og ef að þú ert ekki tilbúinn að hlaupa og berjast þá er erfitt að halda boltanum og gera einhverjar rósir.“

„Við náðum okkur engan veginn á strik og þetta er lélegasti leikur okkar í langan tíma. Við þurfum að gjöra svo vel að fara yfir okkar mál og rifa okkur í gang. Það er sem betur fer stutt í næsta leik og þá verðum við að kvitta fyrir þessa frammistöðu hér í kvöld. Það er leikur við Skagamenn á miðvikudaginn og þá verðum að koma til baka og sýna að þessi frammistaða hafi verið slys.“

„Það er mjög gott að það séu bara tveir dagar í næsta leik. Það hefði verið ömurlegt að fara í gegnum heila æfingaviku. Við verðum að nýta tímann vel fram að næsta leik og kryfja það hvað fór úrskeiðis hér í kvöld og sýna okkar rétta andlit gegn Skagamönnum á miðvikudaginn kemur.“ sagði Davíð Þór Viðarsson í viðtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert