„Var ein taugahrúga á meðan drættinum stóð“

Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. mbl.is/Golli

Hannes Þór Halldórsson markvörður íslenska landsliðsins í knattspyrnu er ánægður með riðilinn sem Ísland dróst á EM en Íslendingar verða í F-riðli ásamt Portúgal, Austurríki og Ungverjalandi.

„Ég er ánægður með riðilinn. Þetta er enginn glamúr riðill en það skiptir okkur engu. Við erum að fara til Frakklands til að fara áfram og með það í huga hefðum við getað verið óheppnari. Þetta eru auðvitað allt sterk lið en ég tel okkur geta náð í úrslit gegn þeim öllum,“ sagði Hannes Þór við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum hans eftir dráttinn.

Ég var ein taugahrúga á meðan drættinum stóð. Ég var frekar rólegur yfir þessu í dag en um leið og þeir byrjuðu að draga fór eg að svitna, svo er maður í nettu spennufalli núna,“ sagði Hannes.

Hannes er að jafna sig eftir aðgerð á öxl sem hann gekkst undir fyrir tveimur mánuðum en hann vonast til að geta farið að spila aftur eftir tvo mánuði.

Ísland mætir Portúgal í St.Etienne þann 14. júní, leikur við Ungverjaland í Marseille þann 18. júní og gegn Austurríki í París þann 22. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert