„Ég vil gervigrasvæða Ísland“

Harpa Þorsteinsdóttir á æfingu í dag.
Harpa Þorsteinsdóttir á æfingu í dag. mbl.is/Golli

Markadrottningin Harpa Þorsteinsdóttir verður væntanlega í fremstu víglínu gegn Makedóníu annað kvöld, þegar liðin leika á Laugardalsvelli í undankeppni EM. Harpa skoraði að sjálfsögðu gegn Skotum á föstudagskvöld, enda fór leikurinn fram á gervigrasi og á slíku undirlagi skorar Stjörnukonan oftar en ekki.

„Mér líður ótrúlega vel á gervigrasi. Það hentar liðinu líka vel og i raun betur heldur en Skotunum. Ég vil bara gervigrasvæða allt Ísland! Það er mitt hjartans mál. Ef ég fer í forsetakosningar, þá væri það fyrsta mál á dagskrá hjá mér,“ sagði brosmild Harpa þegar hún talaði við blaðamann á landsliðsæfingu í dag.

Framherjinn markheppni viðurkennir að allt annar leikur bíði á morgun og verandi miklu sigurstranglegri aðilinn, þurfi að undirbúa sig öðruvísi í kollinum.

„Það er alveg viss áskorun. Við þurfum alveg að hafa svolítið fyrir því að gíra okkur rétt inn í þennan leik. Það er ekki alveg það sama hvernig maður sækir þrjú stig gegn Makedóníu heima eða Skotlandi úti. Við erum klárlega með betra lið og á pappírnum eigum við alltaf að vinna en það er samt bara þannig í fótbolta að maður þarf bara sækja stigin sem eru í boði og það ætlum við að gera á morgun.“

Landsliðið æfði í Kaplakrika í dag.
Landsliðið æfði í Kaplakrika í dag. mbl.is/Golli

Harpa segir úrslitin á föstudagskvöld gegn Skotum, vera árangur mikillar vinnu.

„Við lærðum bara Skotana utanbókar. Allt þjálfarateymið og allur hópurinn í kringum liðið, lagði hjarta og sál í að gera okkur tilbúnar og að verkefnið yrði okkur sem einfaldast. Það er óhætt að segja að það hafi skilað sér.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert