Sex leikir og 14:2

Íslensku leikmennirnir fagna Theódóri Elmari Bjarnasyni eftir fyrra markið í …
Íslensku leikmennirnir fagna Theódóri Elmari Bjarnasyni eftir fyrra markið í kvöld. mbl.is/Golli

Fyrir tyrkneska landsliðsmenn í knattspyrnu er Laugardalsvöllurinn greinilega einhver erfiðasti útivöllur sem þeir heimsækja. Tyrkland sótti Ísland heim í sjötta sinn í kvöld og hefur ekki riðið feitum hesti frá þeim viðureignum.

Ísland hefur unnið fimm af þessum sex leikjum við Tyrki í Laugardalnum en einu sinni hafa liðin gert markalaust jafntefli. Tyrkir hafa aðeins náð að skora tvívegis, og markatalan er kunnugleg úr íslensku knattspyrnusögunni, eða 14:2, en Íslandi í hag að þessu sinni!

Tyrkir komu hingað fyrst árið 1981 í undankeppni HM og Ísland sigraði 2:0 þar sem Lárus Guðmundsson og Atli Eðvaldsson skoruðu mörkin.

Aftur mættu Tyrkir á Laugardalsvöll haustið 1989, einnig í undankeppni HM. Ísland sigraði 2:1 og þar skoraði Pétur Pétursson bæði mörkin.

Þriðja heimsókn Tyrkja var sumarið 1991, í eina vináttulandsleik þjóðanna til þessa. Ísland vann stórsigur, 5:1 og Arnór Guðjohnsen jafnaði met Ríkharðs Jónssonar í landsleik með því að skora fjögur markanna, eftir að Sigurður Grétarsson hafði skorað fyrsta mark leiksins.

Eina stig Tyrkja á Laugardalsvelli kom haustið 1995, í undankeppni EM, þegar liðin gerðu 0:0 jafntefli.

Tyrkir komu hingað í september 2014, í fyrstu umferð undankeppni EM 2016, og Ísland vann eftirminnilegan sigur, 3:0. Jón Daði Böðvarsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson skoruðu mörkin.

Og sjötta heimsóknin var í kvöld. Enn einn íslenskur sigur, 2:0, þar sem Theódór Elmar Bjarnason átti mestan heiður af sjálfsmarki Tyrkja og Alfreð Finnbogason skoraði seinna markið.

Samtals hefur Ísland unnið Tyrki sex sinnum í tíu leikjum, tvisvar hafa þjóðirnar skilið jafnar og Tyrkir hafa tvisvar sigrað.

Ellefta viðureignin verður í Tyrklandi föstudaginn 6. október 2017 en þá er leikin næstsíðasta umferðin í þessari undankeppni HM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert