Vill þjálfarann í burtu

Jón Daði Böðvarsson, Ömer Toprak og Theódór Elmar Bjarnason í …
Jón Daði Böðvarsson, Ömer Toprak og Theódór Elmar Bjarnason í leiknum á Laugardalsvellinum í gærkvöld. mbl.is/Golli

Fatih Terim, landsliðsþjálfari Tyrkja í knattspyrnu, situr í afar heitu sæti eftir tapið gegn Íslendingum á Laugardalsvellinum í gærkvöld.

Rüstu Recber, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Tyrkja, er einn þeirra sem vilja að Terim verði látinn taka poka sinn.

„Við höfum ekki lengur trú á þér,“ skrifar Recber í dálki sínum í tyrkneska blaðinu Hürriyet í dag en Tyrkir hafa aðeins fagnað einum sigri í síðustu sjö leikjum sínum.

„Kannski er besta framlag þitt til landsliðsins, sem þú hefur ekki gefið neitt til síðustu þrjú árin, að segja upp starfinu,“ skrifar Recber sem lék 120 leiki með tyrkneska landsliðinu.

Annar fyrrverandi landsliðsmaður Tyrkja, Sergen Yalcin, sagði í sjónvarpsviðtali eftir leikinn að tyrkneska liðið hefði spilað mjög illa á móti íslenska liðinu og hann gagnrýndi liðsvalið en í liðinu voru engir framherjar heldur sex miðjumenn.

Terim var landsliðsþjálfari Tyrkja frá 2005 til 2009 og tók svo aftur við liðinu árið 2013.

<br/><br/>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert