„Alls ekki létt að spila þennan leik“

Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það var mjög sterkt að koma til baka og ná að skora undir lokin. Mér fannst við verðskulda allavega eitt stig úr leiknum,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, þegar mbl.is sló á þráðinn til Kína eftir 2:2-jafntefli Íslands við heimakonur í fyrsta leik á fjögurra þjóða æfingamóti í dag.

Sjá frétt mbl.is: Katrín tryggði jafntefli gegn Kína

Ísland spilaði nýtt kerfi í leiknum, 3-5-2, sem Sara segir að hafi gengið ágætlega.

„Þetta gekk fínt, við náðum ágætlega saman á miðjunni en þurfum að vera aðeins þéttari sem lið. Þetta er í fyrsta sinn sem við spilum þetta, en það gekk ágætlega og skemmtilegt kerfi. Eftir því sem líður á munum við á betri tökum á þessu,“ sagði Sara og tók undir að pressan hafi verið mikil á liðinu í síðari hálfleik

„Þær lágu svolítið á okkur og við féllum kannski full mikið til baka í seinni hálfleiknum. Mér fannst við samt gera ágætlega og að spila nýtt kerfi en þær eru með rosalega gott lið og góða einstaklinga. Þetta var hörkuleikur sem hefði getað farið á báða vegu,“ sagði Sara.

Það var um tuttugu stiga hiti þegar leikurinn fór fram, en hann hófst klukkan hálf átta að kvöldi að staðartíma. En rakinn í loftinu var gríðarlegur sem hafði sitt að segja.

„Það er ótrúlega mikill raki hérna og miðað við ferðalagið hjá okkur og þennan raka þá var alls ekki létt að spila þennan leik. En það var góð stemning á leiknum og fullt af fólki. Umgjörðin er líka mjög flott í kringum þetta. En nú tekur bara við endurheimt og strax næsti leikur eftir tvo daga,“ sagði Sara, en Ísland mætir Dönum strax á laugardag.

„Það er frábært að fá þessa þrjá leiki og gefur okkur góðan undirbúning. Við æfum ekkert mikið en munum reyna að hugsa vel um okkur á milli leikja og það er auðvitað skemmtilegast að spila leiki,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir við mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert