Spá mbl.is: Sjötta sætið

Víkingar komu gríðarlega á óvart með því að sigra Breiðablik …
Víkingar komu gríðarlega á óvart með því að sigra Breiðablik 3:1 í úrslitaleik bikarkeppninnar síðasta sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víkingur úr Reykjavík hafn­ar í sjötta sæti Bestu deild­ar kvenna í knatt­spyrnu á kom­andi keppn­is­tíma­bili, sam­kvæmt spá Morg­un­blaðsins og mbl.is.

Víkingur fékk 103 stig þegar at­kvæði spá­mann­anna voru lögð sam­an en þar voru gef­in stig frá einu (fyr­ir 10. sætið) upp í tíu (fyr­ir fyrsta sætið).  Víkingur og FH voru því hnífjöfn að stigum í 6. og 7. sætinu en þar sem Víkingur fékk fleiri stig í þriðja sæti deildarinnar, sem var það efsta sem báðum liðum var spáð, eru nýliðarnir fyrir ofan FH og hreppa sjötta sætið.

Gangi þetta eftir verður gríðarlega hörð keppni á milli þessara tveggja liða um sjötta sætið sem gefur keppnisrétt í efri hluta deildarinnar á lokasprettinum næsta haust.

Óhætt er að segja að Víkingsliðið hafi slegið í gegn á síðasta ári þegar liðið varð bikarmeistari og vann 1. deildina, en það hefur ekkert annað kvennalið áður afrekað hér á landi. Víkingur leikur því í fyrsta skipti með sjálfstætt lið í efstu deild frá árinu 1984 en félagið var þar í nokkur ár í samstarfi við HK, fyrst árið 2008 og síðast árið 2019. Víkingur og HK hafa teflt fram sjálfstæðum liðum frá árinu 2020.

Víkingar hafa stækkað nokkuð sinn hóp og náðu í öflugan leikmann þegar framherjinn Shaina Ashouri kom til þeirra frá FH. Þá er bandaríski varnarmaðurinn Ruby Diodati komin í raðir Víkinga sem eru með efnilega leikmenn úr yngri landsliðum Íslands í nokkrum lykilstöðum. Mikla athygli vakti á dögunum þegar fyrirliðinn Nadía Atladóttir rifti samningi sínum við Víking og gekk til liðs við Val.

John Henry Andrews tók við þjálfun Víkingsliðsins þegar það hóf sjálfstæða keppni árið 2020.

Komn­ar:
Ruby Di­odati frá Gintra (Lit­há­en)
5.4. Shaina Ashouri frá FH
1.3. Krist­ín Erla Ó. John­son frá KR
1.2. Birta Guðlaugs­dótt­ir frá Val
1.2. Gígja Val­gerður Harðardótt­ir frá KR
1.2. Jó­hanna Lind Stef­áns­dótt­ir frá FHL (úr láni)
1.2. Mist Elías­dótt­ir frá Fram

Farn­ar:
12.4. Nadía Atla­dótt­ir í Val
  2.2. Kol­brún Tinna Eyj­ólfs­dótt­ir í þýskt fé­lag

Fyrstu leik­ir Víkings:
22.4. Stjarnan - Víkingur R.
27.4. Víkingur R. - Fylkir
  2.5. Valur - Víkingur R.
  9.5. Víkingur R. - Þór/KA
15.5. Þróttur R. - Víkingur R.

Lokastaðan:
1 ??
2 ??
3 ??
4 ??
5 ??
6 Víkingur R. 103
7 FH 103
8 Fylk­ir 47
9 Tinda­stóll 46
10 Kefla­vík 42

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert