EM: Staðráðnar í að hefna tapsins

Kristín Ýr Bjarnadóttir og Dóra María Lárusdóttir reima á sig …
Kristín Ýr Bjarnadóttir og Dóra María Lárusdóttir reima á sig skóna fyrir myndatöku á hóteli íslenska liðsins í gærkvöld. mbl.is/Golli

"Ég á von á hörkuleik gegn Frökkum, sem eru með mjög gott lið og við vitum hvað þær geta. Við verðum bara að mæta grimmar til leiks," sagði Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, varnarmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, við mbl.is í Tampere.

Þar býr hún sig undir fyrsta leikinn í úrslitakeppni Evrópumótsins sem er gegn Frökkum og hefst kl. 17 á morgun, mánudag, að íslenskum tíma.

„Ef við spilum góðan varnarleik, getum við vel staðið í Frökkunum og líka unnið þá. Við höfum gert það áður og getum vel endurtekið leikinn núna. Það hjálpar okkur að hafa sigrað þær áður í undankeppninni, og þegar við töpuðum fyrir þeim í seinni leiknum í Frakklandi vorum við ekkert síðri aðilinn í seinni hálfleiknum," sagði Guðrún Sóley.

Hún kvaðst ánægð með að vera loksins komin á keppnisstað í Finnlandi, eftir langa bið og mikla eftirvæntingu.

"Þetta var svolítið skrýtið fyrst, maður var búinn að bíða svo lengi eftir þessari keppni og síðan vorum við allt í einu mættar á staðinn. En þetta er fyrst og fremst æðislegt og ég hlakka mikið til fyrsta leiksins. Við erum allar spenntar, og um leið staðráðnar í að hefna fyrir tapið í seinni leiknum í undankeppninni. Það er efst í huga okkar allra."

Guðrún Sóley fór frá KR síðasta vetur og samdi við sænska úrvalsdeildarliðið Djurgården. Þar hefur hún verið í lykilhlutverki í ár og spilað alla leiki liðsins í deildinni frá upphafi til enda. Guðrún er sannfærð um að það muni hjálpa sér í leikjunum sem framundan eru í Finnlandi.

„Ég er í  betra líkamlegu formi en áður, enda hef ég getað einbeitt mér að fótboltanum í stað þess að þurfa að sitja í vinnunni allan daginn og fara síðan á æfingu. Það er engin spurning að þetta hjálpar. Ég spila í sterkri deild þar sem allir leikir eru erfiðir, það er stóri munurinn frá því að spila heima. Allir leikir eru hálfgerðir úrslitaleikir, og það er einmitt þannig sem þetta verður hérna í Finnlandi," sagði Guðrún Sóley Gunnarsdóttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert