Frakkar mæta Portúgölum í úrslitum

Frakkland mætir Portúgal í úrslitaleik Evrópumóts karla í knattspyrnu eftir 2:0 sigur liðsins gegn Þýskalandi á Stade de Valledrome í Marseille í kvöld.

Antoine Griezmann skoraði bæði mark Frakka í leiknum, það fyrra úr vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks og það seinna um miðbik seinni hálfleiks. Griezmann hefur nú skorað sex mörk á mótinu, en hann er markahæsti leikmaður mótsins.

Vítaspyrnan sem Griezmann skoraði úr var dæmd á Bastian Schweinsteiger sem handlék boltann innan vítateigs Þjóðverja. Seinna mark Frakka kom síðan eftir klaufagang í vörn Þjóðverja og mistök Manuel Neuer, markverði Þjóðverja.

Frakkland hefur tvisvar sinnum orðið Evrópumeistari fyrst árið 1984 og síðan árið 2000. Portúgal hefur einu sinni áður leikið til úrslita á Evrópumótinu, en liðið laut í lægra haldi fyrir Grikklandi á heimavelli árið 2004. 

90. Leik lokið með 2:0 sigri Frakklands sem mætir Portúgal í úrslitaleiknum á sunnudaginn. 

90. Joshua Kimmich, leikmaður Þýskalands, með frábæran skalla sem Hugo Lloris ver frábærlega. 

90. Skipting hjá Frakklandi. Antoine Griezmann fer af velli og Yohann Cabaye kemur inná. 

82. Benedikt Höwedes, varnarmaður Þýskalands, með skalla rétt yfir mark Frakka eftir fyrirgjöf frá Toni Kroos úr aukaspyrnu. 

80. Leroy Sané sem var að koma inná sem varamaður hjá Þjóðverjum við það að skora með sinni fyrstu snertingu, en skalli hans fer rétt framhjá marki Frakka. 

79. Skipting hjá Þýskalandi. Bastian Schweinsteiger fer af velli og Leroy Sané kemur inná. 

78. Skipting hjá Frakklandi. Oliver Giroud fer af velli og André-Pierre Gignac kemur inná. 

76. Julian Draxler, leikmaður Þýskalands, með skot hárfínt framhjá marki Frakka beint úr aukaspyrnu. 

75. N'golo Kante, leikmaður Frakklands, er áminntur með gulu spjaldi fyrir brot. 

74. Joshua Kimmich, leikmaður Þýskalands, með skot í samskeytin rétt innan vítateigs Frakka. 

72. MAAARK. Þýskaland - Frakkland, 0:2. Paul Pogba, leikmaður Frakklands, vinnur boltann á hættulegum stað eftir klaufagang í vörn Þjóðverja og sendir boltann fyrir. Manuel Neuer, markvöður Þýskalands, missir boltann frá sér og Antoine Griezmann skorar í autt markið. Þetta er sjötta mark Griezmann á mótinu, en hann er markahæsti maður mótsins. 

71. Skipting hjá Frakklandi. Dimitri Payet fer af velli og N'golo Kante kemur inná. 

67. Skipting hjá Þýskalandi. Emre Can fer af velli og Mario Götze kemur inná. 

60. Skipting hjá Þýskalandi. Jerome Boateng fer af velli og Shkodran Mustafi kemur inná. 

59. Jerome Boateng, varnarmaður Þýskalands, þarf að fara af velli vegna meiðsla. 

50. Julian Draxler, leikmaður Þýskalands, er áminntur með gulu spjaldi fyrir brot. 

47. Frakkar hefja seinni hálfleikinn af miklum krafti. Oliver Giroud og Antoine Griezmann komast í fín skotfæri, en ná ekki að tvöfalda forystu Frakklands. 

46. Seinni hálfleikur er hafinn. 

45. Hálfleikur. Staðan er 1:0 fyrir Frakkland í hálfleik. 

45. Mesut Özil, leikmaður Þýskalands, er áminntur með gulu spjaldi fyrir mótmæli. 

45. MAAARK. Þýskaland - Frakkland, 0:1. Antoine Griezmann, leikmaður Frakklands, skorar af feykilegu öryggi úr vítaspyrnunni. Griezmann skýtur boltanum í vinstra hornið og Manuel Neuer, markvörður Þýskalands, skutlar sér í hægra hornið. 

45. Bastian Schweinsteiger, leikmaður Þýskalands, er áminntur með gulu spjaldi fyrir að handleika knöttinn innan vítateigs Þjóðverja. 

45. Vítaspyrna dæmd á Bastian Schweinsteiger, leikmann Þjóðverja, fyrir að slá boltann innan vítateigs Þýskalands. 

43. Patrice Evra, leikmaður Frakklands, er áminntur með gulu spjaldi fyrir brot. 

42. Oliver Giroud, framherji Frakklands, sleppur einn í gegnum vörn Þýskalands. Giroud er hins vegar afar svifaseinn og Benedikt Höwedes, varnarmaður Þjóðverja, hleypur hann uppi og kemst í veg fyrir skot hans með góðri tæklingu. 

41. Antoine Griezmann, leikmaður Frakklands, með skot úr þröngu færi sem fer í hliðarnetið á marki Þjóðverja. 

37. Paul Pogba, leikmaður Frakklands, með laust skot úr aukaspyrnu af um það bil 25 metra færi sem Manuel Neuer, markvörður Þýskalands á ekki í miklum erfiðleikum með að verja. 

36. Emre Can, leikmaður Þýskalands, er áminntur með gulu spjaldi fyrir brot. 

31. Julian Draxler, vængmaður Þjóðverja, reynir að koma boltanum til Thomas Müller, en Samuel  Umtiti, varnarmaður Frakka, kemur boltanum í burtu áður en Müller nær til hans. 

26. Bastian Schweinsteiger, leikmaður Þýskalands, með skot rétt utan vítateigs sem Hugo Lloris, markvörður Frakklands, slær í horn. 

24. Dimitri Payt, leikmaður Frakklands, með skot af löngu færi úr aukaspyrnu sem Manuel Neuer, markvörður Þýskalands á ekki í erfiðleikum með að verja. 

20. Toni Kroos, leikmaður Þýskalands, kemst í gott skotfæri eftir laglegt samspil við Thomas Müller. Paul Pogba nær hins vegar að trufla hann og skotið verður þar af leiðandi laust. 

14. Þjóðverjar eru sterkari aðilinn þessa stundina. Emre Can með gott skot af vítateigslínunni sem Hugo Lloris gerir vel í að verja. 

12. Thomas Müller fær fyrsta færi Þjóðverja þegar hann skýtur framhjá í fínu færi eftir fyrirgjöf frá Emre Can. 

6. Antoine Griezmann, leikmaður Frakklands, með fyrsta skot leiksins sem Manuel Neuer, markvörður Þýskalands ver. 

5. Leikurinn hefst afar fjörlega og Frakkar hefja leikinn af meiri krafti.  

1. Leikurinn er hafinn. 

0. Sami Khedira og Mario Gomes, leikmenn Þýskalands, verða fjarri góðu gamni vegna meiðsla í þessum leik. Þá er Mats Hummels sem leikið hefur vel í hjarta varnarinnar hjá þýska liðinu í leikbanni. 

0. Hvorki meiðsli né leikbönn herja á franskal liðið og Didier Deschamps, þjálfari franska liðsins, getur þar af leiðandi stillt upp sínu sterkasta liði. 

0. Frökkum hefur ekki tekist að bera sigurorð af Þjóðverjum í stórmóti í knattspyrnu karla síðan í heimsmeistaramótinu í Svíþjóð árið 1958. Þjóðirnar hafa mæst fimm sinnum á stórmóti síðan 1958 og Þjóðverjar haft betur í leikjunum fimm.

Byrjunarlið Þýskalands: Neuer - Kimmich, Boateng, Höwedes, Hector - Can, Schweinsteiger, Kroos - Özil, Müller, Draxler.

Byrjunarlið Frakklands: Lloris - Sagna, Koscielny, Umtiti, Evra - Pogba, Matuidi - Sissoko, Griezmann, Payet - Giroud. 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

LEIKIR Í DAG - 20. MAÍ

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 20. MAÍ

Útsláttarkeppnin