Ívar og Brynjar klárir í slaginn

Ívar og Brynar í baráttu við John O'Shea leikmann Manchester …
Ívar og Brynar í baráttu við John O'Shea leikmann Manchester United. Reuters

Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson eru báðir klárir í slaginn með Reading sem sækir West Ham heim á Upton Park í ensku úrvalsdeildinni í dag. Brynjar Björn var óvænt í byrjunarliðinu gegn Sunderland á sunnudaginn en eftir að hafa verið saumaður átta sporum í innanvert hné í leiknum á undan var ekki reiknað með að hann gæti spilað.

Ívar og Brynjar verða nær örugglega í byrjunarliðinu. Ívar átti mjög góðan leik gegn Sunderland og skoraði fyrra mark liðsins og Brynjar varð að vanda traustur á miðjunni en hann hefur verið fastamaður í Reading-liðinu allt tímabilið og Ívar hefur náð að vinna sitt sæti að nýju.

Reading hefur enn ekki fagnað sigri á útivelli á tímabilinu en strákarnir hans Steve Coppell hafa verið að sækja í sig veðrið að undanförnu og eru til alls líklegir á Upton Park í dag.

„Lið West Ham er sterkt og þó svo að nokkrir góðir leikmenn séu frá vegna meiðsla þá hefur liðinu tekist að fylla skörð þeirra vel. Við töpuðum illa fyrir þeim á heimavelli okkar fyrr á leiktíðinni og getum vonandi bætt fyrir það,“ segir Steve Coppell.

Leikur West Ham og Reading hefst klukkan 13.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert