Roy Hodgson ráðinn til Fulham

Roy Hodgson á landsliðsæfingu með Finnum í nóvember.
Roy Hodgson á landsliðsæfingu með Finnum í nóvember. Reuters

Roy Hodgson var í dag ráðinn knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Fulham, í staðinn fyrir Lawrie Sanchez sem var sagt upp störfum á dögunum.

Hann tekur formlega við liðinu á sunnudaginn, en á morgun mun Ray Lewington stýra því í leik gegn Birmingham í úrvalsdeildinni.

"Ég er staðráðinn í að koma liðinu úr þeirri stöðu sem það er í um þessar mundir, veit að þetta er mikil áskorun en hún er mjög spennandi," sagði Hodgson á  vef Fulham í dag. Fulham er í 18. sæti af 20 liðum í úrvalsdeildinni og hefur aðeins unnið tvo af fyrstu 19 deildaleikjum sínum á tímabilinu.

Hodgson er sextugur Englendingur sem hefur víða komið við á rúmlega 30 ára þjálfaraferli. Nú síðast stýrði hann landsliði Finnlands og var einum leik frá því að koma því alla leið í úrslitakeppni Evrópumótsins.

Hodgson sló í gegn með svissneska landsliðið á sínum tíma, þegar hann kom því í úrslitakeppni HM 1994 og úrslitakeppni EM 1996. Hann stýrði síðan liðum Inter Mílanó og Blackburn Rovers.

Hodgson lék með Crystal Palace á sínum tíma og síðan með nokkrum utandeildaliðum en þjálfaraferilinn hóf hann í Svíþjóð árið 1976. Þar þjálfaði hann lið Halmstad í fjögur ár, var svo um skeið með Bristol City en fór aftur til Svíþjóðar og var þar í sjö ár, fyrst með Örebro í tvö ár og síðan Malmö FF í fimm ár. Eftir það fór hann til Sviss og stýrði Neuchatel Xamax í tvö ár en tók síðan við svissneska landsliðinu.

Eftir að hafa verið með Inter í tvö ár, Blackburn í eitt ár og með Inter á ný í skamman tíma, þjálfaði Hodgson lið Grasshoppers í Sviss, FC Köbenhavn í Danmörku og Udinese á Ítalíu. Hann var landsliðsþjálfari Sameinuðu arabísku furstadæmanna 2002-2004 og stjórnaði Viking Stavanger í Noregi frá 2004 til 2006, þegar hann tók við landsliði Finnlands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert