Ferguson: Skylda að leika vel gegn City

Stuðningsmenn Manchester United hafa minnst flugslyssins með margvíslegum hætti síðustu …
Stuðningsmenn Manchester United hafa minnst flugslyssins með margvíslegum hætti síðustu daga. Reuters

Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United segir að það sé sérstök skylda leikmanna liðsins að spila mjög vel í grannaslagnum gegn Manchester City á morgun, vegna minningarinnar um flugslysið í München fyrir 50 árum síðan.

Síðasta miðvikudag voru 50 ár síðan átta leikmenn Manchester United og samtals 23 farþegar fórust í flugslysinu umtalaða í München. Fyrir leikinn á Old Trafford sem hefst kl. 13.30 verður þeirra sem fórust sérstaklega minnst með einnar mínútu þögn. Það verður hápunktur minningarhátíðarinnar sem staðið hefur yfir í Manchester undanfarna daga.

„Það er á ábyrgð leikmanna okkar að standa sig vel í leiknum og ég vonast eftir því að við eigum sérlega góðan leik. Það er í samræmi við minninguna um slysið í München. Síðustu vikuna hef ég áttað mig enn betur á því að ég er knattspyrnustjóri eins mesta félags sögunnar. Það voru áhyggjur áður en vikan rann upp hvort þetta myndi allt ganga vel fyrir sig en ég er afar stoltur af starfsliði okkar, þetta hefur allt farið fram í mjög góðu jafnvægi. Ég hef alltaf verið stoltur af því að stjórna Manchester United, og var enn stoltari á miðvikudaginn. Það var stórkostlegt að sjá hvernig eldri leikmenn sýndu hug sinn til félagsins," sagði Ferguson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert