Real-menn ánægðir með ummæli Ronaldos

Cristiano Ronaldo kælir sig á æfingu portúgalska landsliðsins í Sviss …
Cristiano Ronaldo kælir sig á æfingu portúgalska landsliðsins í Sviss í gær. Reuters

Forseti Real Madrid hefur lýst yfir ánægju með ummæli Cristiano Ronaldos, portúgalska knattspyrnumannsins hjá Manchester United, um að hann geti vel hugsað sér að spila með spænsku meisturunum.

Ronaldo sagði þetta í gær í viðtali við brasilíska netmiðilinn Terra. „Mig langar til að spila með Real Madrid, en einvörðungu ef félagið er tilbúið til að greiða mér og Manchester United þær upphæðir sem það hefur nefnt. En ég vil taka skýrt fram að ég tek ekki ákvörðun í þessu máli, og frá þessari stundu mun ég ekki ræða það frekar fyrr að Evrópukeppninni lokinni. Það þýðir ekkert að spyrja mig því ég mun ekki svara," sagði Ronaldo.

Forsetinn, Ramon Calderon, var að vonum fljótur að koma með viðbrögð við þessu. „Það er heiður að vita að leikmaður á borð við hann skuli telja að það væri gott að leika með liði Real Madrid. Við erum stoltir af því að vita að hann væri til í að spila með okkur," sagði Calderon við spænska íþróttadagblaðið AS í morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert