Eiður Smári kominn til Tottenham

Eiður Smári Guðjohnsen
Eiður Smári Guðjohnsen mbl.is/Eggert

Sky Sports skýrði frá því rétt í þessu að enska knattspyrnufélagið Tottenham Hotspur hefði gengið frá málum varðandi Eið Smára Guðjohnsen og fengið hann lánaðan frá Mónakó út þetta keppnistímabil.

Hvorki Tottenham né Mónakó hafa þó birt neitt um Eið á sínum vefjum enn sem komið er. Haft var eftir Harry Redknapp knattspyrnustjóra Tottenham í The Sun í morgun að Eiður væri búinn að velja Tottenham framyfir West Ham en hann hefði verið með nákvæmlega eins tilboð í höndunum frá grannliðunum í London.

Eiður var aðeins í fimm mánuði hjá Mónakó en hann kom þangað frá Barcelona í lok ágúst. Hann hefur spilað 11 leiki með liðinu, þar af 9 í frönsku 1. deildinni, og sex þeirra í byrjunarliði. Eiður var settur útúr leikmannahópi liðsins fyrir jól og vermdi varamannabekkinn í síðustu leikjum þess nú í janúar.

Mögulegt er að Eiður spili sinn fyrsta leik strax á laugardaginn þegar Tottenham sækir Birmingham heim í úrvalsdeildinni.

Eiður er kominn á kunnuglegar slóðir því hann lék í sex ár með Chelsea, öðru Lundúnaliði, og varð enskur meistari með því árin 2005 og 2006, vann deildabikarinn 2005 og fór langt með liðinu í Meistaradeild Evrópu. Áður lék Eiður í tvö ár með Bolton í ensku 1. deildinni.

Eiður á að baki 185 leiki með Chelsea í úrvalsdeildinni og hann skoraði í þeim 54 mörk. Hann náði að skora 10 mörk eða meira í deildinni þrjú ár í röð og gerði 14 mörk í úrvalsdeildinni tímabilið 2001-02 og 12 mörk meistaraveturinn 2004-05 en þá lék hann 37 af 38 leikjum liðsins í deildinni.

Með Bolton spilaði Eiður 55 leiki í 1. deildinni árin 1998 til 2000 og skoraði 18 mörk.

Eiður lék síðan með Barcelona í þrjú ár, frá sumrinu 2006. Hann spilaði 72 leiki með Katalóníuliðinu í spænsku 1. deildinni og skoraði 10 mörk. Síðasta vetur lék Eiður 33 leiki með Barcelona í öllum mótum, þar af 17 leiki í byrjunarliðinu, og varð Evrópumeistari, Spánarmeistari og spænskur bikarmeistari með liðinu.

Eiður er þriðji Íslendingurinn sem gengur til liðs við Tottenham. Guðni Bergsson lék með liðinu frá desember 1998 og til ársins 1994. Emil Hallfreðsson var í röðum Tottenham 2005-2007 en fékk aldrei tækifæri með aðalliði félagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert