Slæmur endir á frábærri viku

Alli og Harry Kane fagna marki í dag.
Alli og Harry Kane fagna marki í dag. AFP

Miðjumaðurinn ungi Dele Alli nældi sér í sitt fimmta gula spjald á tímabilinu þegar Tottenham sigraði West Ham, 4:1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu fyrr í dag. Vegna þess verður Alli í leikbanni þegar Tottenham tekur á móti Chelsea um næstu helgi.

Alli missti stjórn á skapi sínu um miðjan síðari hálfleikinn eftir að Mark Noble, leikmaður West Ham, braut á samherja Alli. Varð það til þess að Alli fékk gult spjald og missir hann því af því að mæta lærisveinum José Mourinho næstkomandi sunnudag.

„Hann er ungur og bráðefnilegur. En hann verður samt að halda ró sinni í svona aðstæðum,“ sagði Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, eftir leikinn í dag.

Þetta er leiðinlegur endir á annars frábærri viku hjá Alli en hann skoraði sem kunnugt er sitt fyrsta landsliðsmark fyrir England þegar liðið sigraði Frakkland, 2:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert