Gæfan ekki hliðholl Viktor Þór

Viktor Þór tilbúinn til keppni í Donington.
Viktor Þór tilbúinn til keppni í Donington. mbl.is/jamesbearne

Gæfan var ekki hliðholl Viktor Þór Jensen í formúlu-3 mótum helgarinnar í Donington Park. Endurtók hann ekki leikinn frá fyrstu mótshelginni er hann komst á verðlaunapall í báðum mótum páskanna.

Viktor Þór tókst ekki upp sem skyldi í tímatökunum, varð sjöundi af 11 í sínum flokki í þeim báðum. Í fyrra móti helgarinnar vann hann sig strax upp í fimmta sæti en eftir tvo hringi var hann knúinn útaf brautinni. Við það skemmdist ventill á hægra framdekki svo loft lak úr því hægt og bítandi.

Fyrir vikið varð bíllinn óstöðugur og missti ferð og kom á endanum í mark í níunda sæti. Varð Viktor Þór að leggja bílnum utan brautar og yfirgefa hann rétt eftir að hann ók yfir marklínuna, eiginlega bara með þrjú hjól undir bílnum.

Í seinna mótinu reif Viktor Þór sig fram úr fjórum bílum í ræsingunni og varð von bráðar kominn upp að hlið forystumannsins í flokknum, en vegna bleytu í brautinni missti hann bílinn í snúning og rann út úr henni. Fleiri ökumenn urðu fyrir því einnig en er Viktor Þór komst aftur inn á brautina var hann orðinn síðastur. Dró hann keppinautana fljótt uppi og vann sig á endanum upp í sjöunda sæti.

"Þegar á heildina er litið var helgin svekkjandi. Jákvæð eru þó góðar ræsingar og harðfylgi í keppninni. Ég mun nú vinna að því með liðinu að gera betur í næsta móti, sem fram fer á götum Búkarest 20. maí. Þar er ég ákveðinn í að keppa um verðlaunasæti á ný," sagði Viktor Þór um mót helgarinnar.

Viktor Þór að góðri ferð í mótunum í Donington í …
Viktor Þór að góðri ferð í mótunum í Donington í gær. mbl.is/jamesbearne
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert