Toyota á útkíkki eftir ökuþór í stað Ralfs

Ralf og liðsmenn Toyota höfðu ekki mikla ástæðu til að …
Ralf og liðsmenn Toyota höfðu ekki mikla ástæðu til að brosa í Mónakó en myndin er tekin fyrir tímatökur og keppni. mbl.is/toyotaf1

John Howett, forstjóri formúludeildar Toyota, hefur gengist við því að Toyotaliðið gæti verið að leita sér að nýjum ökuþór í stað Ralf Schumacher.

Ralf hefur átt afleitu gengi að fagna undir stýri Toyotunnar það sem af er vertíð. Botninum náði hann í Mónakó um helgina er hann náði aðeins tuttugasta sætinu í tímatökunum. Varð hann næstur á eftir nýliðanum og landa sínum Adrian Sutil hjá Spyker.

Rándýr samningur Ralfs rennur út í vertíðarlok en í honum er klásúla sem Toyota gæti nýtt sér til að halda honum áfram. Howett hefur verið helsti stuðningsmaður Ralfs hjá liðinu en kann að vera að gefast upp á honum.

„Það eru faglegar ástæður fyrir því að við fylgjumst með ökuþóramarkaðinum,“ segir Howett við útbreiddasta blað Þýskalands, Bild.

Hann bætir því við að Toyota reyni allt sem í því valdi stendur til að hjálpa Ralf Schumacher að komast yfir þann vanda sem hann á við að etja í bíl sínum.

„Auðvitað er þetta svekkjandi, en það væri rangt að segja að þetta væri bara hans mál. Við þurfum að leggja honum til betri bíl,“ segir Howett.

Blaðamenn við tímaritið Sport Bild segjast hafa heyrt fyrir tilviljun samræður BMW-þóranna Nick Heidfeld og Robert Kubica í Mónakó um „skelfilegan hraðaskort“ Ralfs.

Nick spurði Robert hvort hann teldi að Schumacher-nafnið yrði við lýði í formúlu-1 eftir árið. „Ég veit það ekki, en hann fær alla vega ekki áfram sömu laun,“ svaraði Kubica.

Ralf Schumacher átti ekki góða helgi í Mónakó.
Ralf Schumacher átti ekki góða helgi í Mónakó. mbl.is/toyotaf1
Ralf Schumacher tekur af stað úr þjónustustoppi í Mónakó.
Ralf Schumacher tekur af stað úr þjónustustoppi í Mónakó. mbl.is/toyotaf1
Ralf Schumacher átti á brattann að sækja í Mónakó.
Ralf Schumacher átti á brattann að sækja í Mónakó. mbl.is/toyotaf1
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert