Trulli: „Réttlæti fullnægt"

Trulli (t.v.) kemur af fundi dómaranna í dag í fylgd …
Trulli (t.v.) kemur af fundi dómaranna í dag í fylgd fulltrúa Toyota. reuters

Jarno Trulli hjá Toyota er ánægður með að eftirlitsdómarar kappakstursins í  Melbourne skuli hafa ógilt eigin ákvörðun og látið árangur hans góðan  og gildan standa. Í Melbourne felldu þeir hann úr þriðja sæti í það tólfta fyrir meint brot en hafa snúið við blaðinu.

Trulli var refsað fyrir að taka fram úr Lewis Hamilton hjá McLaren þegar öryggisbíll var í brautinni. Hamilton gaf villandi upplýsingar um atvikið hjá dómurunum eftir kappaksturinn. Í raun hafði hann fengið fyrirmæli frá liði sínu að hleypa Trulli fram úr sér þar sem Toyotaþórinn var upphaflega á undan honum á eftir öryggisbílnum en ók útaf en þá fór Hamilton fram úr.

"Ég er ánægður því ég vildi að réttlætið fengi að njóta sín. Ég er ánægður fyrir mína hönd og liðsins - og ég verð að þakka Alþjóða akstursíþróttasambandinu (FIA) því það gerist ekki oft að þeir endurskoði eitthvað," sagði Trulli eftir að hann kom af fundi dómaranna, sem funduðu um málið í Sepang í Malasíu í dag.

"Þetta hlýtur að hafa verið þeim þungbær, en þeir beittu heilbrigrði skynsemi til að átta sig á því hvað í raun var á seyði. Ég hef alltaf verið heiðarlegur og það launaði sig," sagði Trulli einnig.

Í tilkynningu dómaranna í dag, segir, að bæði Hamilton og fulltrúi McLarenliðsins hafi verið spurðir um það eftir kappaksturinn í Melbourne hvort Hamilton hafi verið skipað að hleypa Trulli fram úr. Því var neitað en í ljós hefur komið af talstöðvarsamskiptum ökumannsins og stjórnborðs liðsins, að Hamilton fékk tvisvar bein fyrirmæli um að hleypa Trulli fram úr, sem hann og gerði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert