Räikkönen stóðst álagið og vann fyrsta sigur Ferrari í ár

Räikkönen vann fyrsta sigur Ferrari í ár en var alla …
Räikkönen vann fyrsta sigur Ferrari í ár en var alla leið undir mikilli pressu Fisichella hjá Force India.

Kimi Räikkönen hjá Ferrari var í þessu að aka fyrstur yfir marklínuna í Spa. Stóðst hann atlögur Giancarlo Fisichella hjá Force India sem fylgdi honum eins og skuggi alla leið. Var hann tvímælalaust maður dagsins og sýndi að það var ekki tilviljun að hann vann ráspólinn í gær. Þetta er í fyrsta sinn sem indverska liðið á mann á verðlaunapalli í formúlu-1. Þriðji varð Sebastian Vettel hjá Red Bull.

Räikkönen getur fyrst og fremst þakkað KERS-búnaði sínum að hann fór með sigur af hólmi í Spa. Það var eini munurinn á Ferraribílnum og bíl Force India. Með því tókst honum að halda Fisichella nógu langt frá sér - um og rúmlega hálfa sekúndu að staðaldri - til að hann gæti ekki reynt framúrakstur. 

Einvígi þeirra stóð alla leið en Fisichella gat ekki haldið Räikkönen fyrir aftan sig eftir að öryggisbíll fór úr brautinni eftir fjóra hringi. Var hann kallaður út vegna hópáreksturs á fyrsta hring þar sem Jenson Button hjá Brawn, Lewis Hamilton hjá McLaren, Roman Grosjean hjá Renault og Jamie Alguersuari hjá Toro Rosso skullu saman og féllu úr leik. 

Er öryggisbíllinn fór út kom Räikkönen sér fyrir í kjölsogi Fisichella inn að og upp eftir Rauðavatnsbeygjunni (Eau Rouge) og notaði síðan KERS-búnaðinn til að skjótast fram úr á langa beina kaflanum upp að Les Combes-beygjunni. Fisichella skaust beint aftur fyrir Räikkönen og hugðist nota kjölsög Ferraribílsins til að skjótast fram úr aftur, en komst ekki.

Þar með má segja að úrslitin hafi verið ráðin. Árangur og frammistaða Fisichella í keppninni er afar athyglisverð. Umskiptin milli móta mikil. Var hann í raun hraðskreiðari en Räikkönen sem hélt efsta sæti fyrst og fremst vegna KERS-búnaðarins. 

Fisichella sýndi að flýtir Force India-bílsins á æfingum á föstudag og laugardag, og svo efsta sætið í keppninni um ráspóllinn, var engin tilviljun eða grís. Vann hann fyrstu keppnisstig liðsins á árinu.

Ökuþórum sem helst ógna forystu Buttons í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra mistókst að notfæra sér ófarir hans svo orð sé á gerandi. Rubens Barrichello klúðraði ræsingunni - sat á fjórða rásstað - og varð aðeins sjöundi. Skemmdi hann trjónu í samstuði í ræsingunni og varð að skipta um og féll þá niður í síðasta sæti. Breytti hann keppnisáætlun og bjargaði því sem bjargað varð.

Þremur hringjum frá endamarki stóð reykjarmökkur undan bílnum og virtist mótorinn vera eð gefa sig. Reyndist það hins vegar olíuleki og hægði hann ferðina til að tryggja sér stigin tvö og komast í mark.

Mark Webber hjá Red Bull virtist þó framan af ætla veita Button skráveifu, var meðal fremstu manna. Því klúðraði hann með því að keyra úr þjónustustoppi í veg fyrir Nick Heidfeld hjá BMW sem varð að bremsa til að forða árekstri. Webber var víttur fyrir atvikið hættulega og þurfti að aka að nýju gegnum bílskúrareinina.

Jarno Trulli hóf keppni í öðru sæti og þótti sigurstranglegastur og kvaðst rétt fyrir ræsingu gera sér vonir um að vinna fyrsta mótssigur Toyota. Þeim möguleika klúðraði hann í fyrstu beygju. Eftir að hafa misst marga bíla fram úr sér ók hann aftan á Heidfeld. Við það laskaðist bíllinn og neyddist hann á endanum til að hætta keppni eftir 11 hringi.

BMW kemur betur frá þessu móti en nokkru öðru í ár með ökumenn sína í fjórða og fimmta sæti. 

Fernando Alonso hjá Renault ók vel og komst úr 13. sæti og upp undir skott Fisichella og Räikkönen áður en hann tók sitt fyrsta stopp. Það tók langan tíma vegna skemmda á felguhlíf og fjöðrunarbúnaði sem talið er að hafi átt sér stað í samstuði við annan bíl í fyrstu beygju. Ákvað Renaultliðið því að kalla hann inn og hætta strax á fyrsta hring eftir stoppið. Hvorugur Renaultinn lauk því keppni og er vertíðin þegar orðin sú lélegasta hjá liðinu um margra ára skeið.


Fisichella hafði ástæðu til að fagna í Spa.
Fisichella hafði ástæðu til að fagna í Spa.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert