Hamilton öruggur eftir að keppinautar voru víttir

Hamilton, Glock og Alonso fagna á palli í Singapúr.
Hamilton, Glock og Alonso fagna á palli í Singapúr.

Lewis Hamilton hjá McLaren fór með nokkuð öruggan sigur af hólmi í kappakstrinum í Singapúr, eftir að tveir helstu keppinautar hans voru beittir akstursvítum. Annar varð Timo Glock hjá Toyota og þriðji sigurvegari mótsins í fyrra, Fernando Alonso hjá Renault. Þetta er annar sigur Hamilton á árinu.

Glock og Alonso óku stórvel og glöddu liðsmenn sína stórlega en liðum þeirra hefur gengið fremur illa í keppni á árinu. Er þetta í fyrsta sinn frá í þriðja móti ársins, í Barein, sem Toyota fagnar pallsæti.

Og jafnframt er þetta í fyrsta sinn á vertíðinni sem Renault á mann á palli. Franska liðið getur státað af því einnig, að Alonso setti hraðasta hring kappakstursins.

Kappaksturinn var lengi vel fjörlegur og spennandi, ekki síst sakir þess að tveir ökumenn önduðu niður hálsmálið á Hamilton. Héldu fyrst Nico Rosberg hjá Williams og Sebastian Vettel hjá Red Bull honum við efnið.

Vettel virtist ætla verða Hamilton erfiðari, ók hring eftir hring í skottinu á McLarenbílnum. Möguleikar Vettels á sigri gufuðu hins vegar upp er hann ók of hratt í bílskúrareininni í seinna þjónustustoppinu og hlaut akstursvíti; varð að aka gegnum bílskúrareinina.

Sömu refsingu hafði Rosberg hlotið eftir að hann ók ranglega út í brautina úr þjónustustoppi; yfir línur sem afmarkar útreina frá bílskúrasvæðinu.

Button eykur forystuna í stigakeppni ökumanna

Jenson Button hjá Brawn hóf keppni í 12. sæti en vann sig jafnt og þétt fram á við og varð fimmti, einu sæti á undan liðsfélaga síknum Rubens Barrichello sem hóf keppni tíundi.

Vegna þess, og ófara Vettel, sem varð á endanum fjórði, tókst Button að auka á ný forskot sitt í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna.

Button er með 84 stig þegar þrjú mót eru eftir, Barrichello 69, Vettel 59 og Mark Webber hjá Red Bull 51,5 stig. Webber féll úr leik er 15 hringir voru eftir þar sem bremsur hans gáfu sig. Sömu örlög hlutu tveir aðrir bílar í eigu Red Bull, þ.e. báðir bílar Toro Rosso.

Bremsur voru sömuleiðis illa farnar hjá báðum Brawn bílunum og var ökumönnum þeirra sagt að spara bílana á lokahringjunum til að þeir kæmust í mark. Vegna bremsuvandræða hætti Romain Grosjean hjá Renault keppni eftir aðeins fjóra hringi.

Lítið kvað að Ferrari í kappakstrinum. Kimi Räikkönen átti lengi í keppni við Kazumi Nakajima hjá Williams á síðasta þriðjungi leiðarinnar en komst aldrei fram úr og varð tíundi. Giancarlo Fisichella varð þrettándi og háði keppnina út í gegn einvígi við arftaka sinn hjá  Force India, Vitantonio Liuzzi.

Brawnliðið er komið með aðra hönd á heimsmeistaratitil bílsmiða eftir kappaksturinn í Singapúr. Hefur hlotið 153 stig gegn 110,5 stigum Red Bull. Munar 42,5 stigum á þeim en í pottinum eru 48 stig eftir og má mikið gerast til að Brawn hljóti ekki titilinn.

Keppnin um þriðja sætið harðnaði mjög vegna úrslitanna í dag. Ferrari, sem fékk ekkert stig, er nú með aðeins þriggja stiga forskot, 62:59, á McLaren,  sem hlaut 12 stig í dag.

 
Hamilton hóf keppni af ráspól og hélt forystu útí gegn.
Hamilton hóf keppni af ráspól og hélt forystu útí gegn.
Renault getur glaðst á ný eftir erfiða daga innan brautar …
Renault getur glaðst á ný eftir erfiða daga innan brautar sem utan.
Glock á ferð í keppninni í Singapúr þar sem hann …
Glock á ferð í keppninni í Singapúr þar sem hann ók einkar vel.
Hamilton fagnar sigri í Singapúr.
Hamilton fagnar sigri í Singapúr.
Hamilton hefur sigurlaun sín á loft.
Hamilton hefur sigurlaun sín á loft.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert