Tær snilld í Sjanghæ

Hamilton fagnar sigri í sjanghæ og liðsmenn hans fagna er …
Hamilton fagnar sigri í sjanghæ og liðsmenn hans fagna er hann ekur yfir marklínuna. reuters

Lewis Hamilton hjá McLaren var í þessu að vinna kínverska kappaksturinn í Sjanghæ en önnur eins keppni og þar hefur ekki sést í formúlu-1 í manna minnum. Annar varð Seastian Vettel á Red Bull og þriðji - fyrir einstaka og eftirminnilega harðfylgi - liðsfélagi hans Mark Webber.

Atvikin; einvígin, návígin, stöðubreytingarnar, framúraksturinn voru alltof mörg til að hægt sé að gera grein fyrir þeim í stuttu máli. Ballið byrjaði strax í ræsingunni er Vettel féll niður í þriðja sæti, hikstaði í upptakinu og missti bæði Button og Hamilton fram úr sér.

Sá síðarnefndi hafði rétt komist út í brautina vegna bilunar og var viðgerð meir að segja ekki lokið að fullu áður en Hamilton yfirgaf bílskúrinn aðeins 15 sekúndum áður en það yrði of seint.

Klúður Buttons einstakt

Og Button gerðist sekur um hrikalegt klúður er hann kom inn í sitt fyrsta dekkjastopp. Lagði í stæði hjá Red Bull og fékk að sjálfsögðu enga aðra þjónustu en vera sagt að halda áfram í næsta stæði - hjá McLaren - því Vettel kom inn  um leið.

Þetta varð til þess að Button missti forystuna og Vettel fram úr sér. Allan tímann áttu sér stað talsverðar breytingar vegna mismunandi herfræði og staðan tiltölulega flókin þar til úr henni greiddist á 10 síðustu hringjunum eða svo. Það var á þeim tíma sem bilið milli Vettels og næstu manna minnkaði ört þar sem heimsmeistarinn hafði ekið mun lengur á sínum dekkjum.

Hamilton greip gæsina og batt enda á einræði Red Bull

Hamilton - sem hafði rennt sér fagmannlega fram úr Button skömmu áður - lét tækifærið ekki úr greipum sér renna og máttu annars góðar varnir Vettels síns lítils á endanum.

Þar með var sigurganga Vettels og Red Bull rofin og virðist sem McLaren hafi dregið liðið uppi að bílstyrk. Mun þó einstakur árangur Webbers ekki fara framhjá neinum mótherja en hann hóf keppni af 18. rásstað og tryggði sér verðlaunasæti með því að vinna sig fram úr Button rúmum hring frá endamarki. Og þetta afrek vann Webber án þess að hafa KERS-búnað sér til fulltingis.

Rosberg tæpur á bensíni

Nico Rosberg hjá Mercedes átti einstakan dag og var lengstum í keppni um verðlaunasæti, var talsverðan tíma í fyrsta sæti. Þegar um 10 hringir voru eftir var hins vegar útlit fyrir að hann hefði gengið um of á bensínbirgðirnar og á mörkum að myndi duga til að ljúka keppni. Ef til vill sparaði hann dropann því eftir þetta féll hann úr öðru sæti niður í það fimmta.

Liðsfélagi hans Michael Schumacher átti eftirminnilegan dag og marga rimmuna við keppinautana, einkum þó Webber, en þeir glímdu lengi um miðbik keppninnar. 

Svona væri lengi hægt að halda áfram en óhætt er að segja að keppnin í formúlu-1 það sem af er ári hafi orðið tilþrifameiri og fjörlegri með hverju móti. Spennandi átök út í gegn í Sjanghæ og spurning hvort ekki verði áframhald í næsta móti, í Tyrklandi eftir þrjár vikur.

Button á undan Hamilton og Vettel á fyrsta hring í …
Button á undan Hamilton og Vettel á fyrsta hring í Sjanghæ. reuters
Schumacher (nær) og Webber glíma í Sjanghæ.
Schumacher (nær) og Webber glíma í Sjanghæ. reuters
Vettel (t.h.) og Massa í návígisrimmu í Sjanghæ.
Vettel (t.h.) og Massa í návígisrimmu í Sjanghæ.
Keppninnar í Sjanghæ verður lengi minnst fyrir tilþrif og spennu.
Keppninnar í Sjanghæ verður lengi minnst fyrir tilþrif og spennu. reuters
Hamilton í brautinni í Shanghai.
Hamilton í brautinni í Shanghai. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert