Faðirinn fór í markið fyrir soninn

Sá óvenjulegi atburður átti sér stað í kvöld í leik á Íslandsmótinu í knattspyrnu að faðir tók stöðu sonar síns í marki en þetta gerðist á Hornafirði þegar lið Sindra tók á móti Spyrni í 3. deild.

Markvörður Sindra er Denis Cardaklija, tvítugur að aldri, og hann hafði leikið í marki Hornfirðinga í fyrstu leikjum tímabilsins. Faðir hans, Hajrudin Cardaklija, hafði hinsvegar verið til taks á varamannabekk Sindramanna.

Í kvöld var hlutverkunum snúið við því Hajrudin fór í markið en Denis sat á bekknum þegar Sindri sigraði Spyrni, 2:1.

Hajrudin Cardaklija er 43 ára gamall og ekki óvanur á milli stanganna. Hann varði mark Breiðabliks við góðan orðstír frá 1992 til 1996 og var þá sérlega öflugur vítabani í efstu deildinni. Hann spilaði um skeið með Leiftri en hefur verið búsettur á Hornafirði frá 1998 og verið þar markvörður og þjálfari, og hefur nú tekið fram hanskana á ný. Þetta var hans fyrsti deildaleikur í sex ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert