Villa skrifaði undir sex ára samning

Villa varð markakóngur á EM auk þess að verða meistari …
Villa varð markakóngur á EM auk þess að verða meistari með spænska landsliðinu. Reuters

Spænski landsliðsframherjinn David Villa skrifaði í dag undir nýjan sex ára langan samning við félag sitt Valencia og því allt útlit fyrir að kappinn verði þar áfram enn um sinn, en Spánarmeistarar Real Madrid hafa sótt stíft að klófesta hann síðustu daga.

„Dagurinn í dag er mjög gleðilegur fyrir mig. Síðasta einn og hálfan mánuð hefur ýmislegt gerst í kringum mig og ég hef hugsað ýmislegt. Ég er stoltur af því sem ég hef nú gert,“ sagði Villa í samtali við Marca.

Marca fullyrðir jafnframt að Villa muni fá í vasann 3 milljónir evra á ári, eða um milljón krónur á dag, sem gerir hann að launahæsta leikmanni í sögu Valencia-félagsins.

Villa hefur leikið með Valencia frá árinu 2005 og skorað 59 mörk í 100 deildarleikjum. Hann var markahæsti leikmaður Evrópumótsins í sumar þegar hann varð meistari með spænska landsliðinu, og hefur skorað 18 mörk alls í 36 landsleikjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert