Einkaaðilar fjármagna samning Margrétar Láru

Margrét Lára Viðarsdóttir á að bjarga Kristianstad frá falli.
Margrét Lára Viðarsdóttir á að bjarga Kristianstad frá falli. mbl.is/Golli

Ulf Berglund, framkvæmdastjóri sænska knattspyrnufélagsins Kristianstad segir að félagið hafi getað krækt í Margréti Láru Viðarsdóttur frá Linköping vegna þess að fjársterkir einkaaðilar hafi fjármagnað samning hennar.

Þetta kemur fram í samtali við Berglund á netmiðlinum damfotboll.com í dag.

„Margrét er frægasti leikmaður Kristianstad síðan þær Therese Sjögran og Nilla Fischer léku með liðinu," sagði Berglund en það eru tvær mjög þekktar sænskar landsliðskonur sem þar um ræðir.

„Þetta hefði aldrei gengið nema vegna þess að bæði Linköping og Margrét Lára voru sveigjanleg. Ég vil líka leggja áherslu á að þessi félagaskipti breyta ekki kostnaðaráætlunum Kristianstad þar sem það eru einkaaðilar sem tóku að sér að fjármagna þetta," sagði Berglund en vildi ekki skýra frá því hverjir þar ættu í hlut.

„Nei, það get ég ekki en þeir hafa gert þetta vegna þess að þeir vildu styrkja liðið fyrir seinni hluta úrvalsdeildarinnar og sjá til þess að liðið héldi sæti sínu. Þeir vilja einfaldlega að við séum áfram í þessari deild," sagði Berglund og tók undir að það hefði haft sitt að segja að vera með þrjár aðrar íslenskar landsliðskonur í liðinu og íslenska þjálfarann Elísabetu Gunnarsdóttur.

„Að sjálfsögðu, það hjálpaði til. Hún þekkir þjálfarann og þessa þrjá leikmenn. Við gerum ráð fyrir að Margrét verði komin með leikheimild þegar við mætum Djurgården og hún leikur síðan með okkur út tímabilið. Ég veit ekkert um næsta ár, við tökum eitt skref í einu og vonum að Margrét Lára verði sú vítamínssprauta sem við þurfum að fá til þess að fara að skora mörk og hala inn stig í úrvalsdeildinni," sagði Ulf Berglund.

Kristianstad, sem tapaði fyrstu 10 leikjum sínum í deildinni, er nú með 6 stig eftir 13 umferðir og er í þriðja neðsta sætinu. Piteå er með 5 stig og Stattena 3 stig og ljóst er að liðin þrjú munu heyja harða fallbaráttu þar sem eitt þeirra heldur sæti sínu í deildinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert