Þórir Hákonarson: „Mistök af minni hálfu“

Þórir Hákonarson er framkvæmdastjóri KSÍ.
Þórir Hákonarson er framkvæmdastjóri KSÍ. mbl.is

Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, segist taka fulla ábyrgð á þeim mistökum sem gerð voru þegar Atla Jónassyni, markverði KR, var veitt leikheimild með Hvöt sem spilar í 2. deild. Leikheimildin var dregin til baka í gær, aðeins 45 mínútum áður en leikur Hvatar og Magna á Grenivík átti að hefjast og voru því góð ráð dýr fyrir markmannslausa Hvatarmenn.

Hvöt hafði engan annan markmann til að fylla skarð Atla, og sótti því um frestun á leiknum, sem fram fór á Grenivíkurvelli, heimavelli Magna, en lið Hvatar kemur frá Blönduósi.

Ekki var veitt frestun á leiknum og þurfti Jens Elvar Sævarsson, sem er spilandi þjálfari liðsins, að fara í markið.

Reglur KSÍ kveða á um að markmaður megi ekki fá spila með neðrideildaliði, hafi hann leikið með efrideildaliði á sama tímabili, en Atli spilaði með KR gegn Val fyrr í sumar.

„Það er einfaldasta mál í heimi að snúa þessu öllu upp á KSÍ, en gott og vel. Þegar horft er á málið í samhengi hinsvegar, þá er ekkert sjálfsagt mál að menn fái undanþágu fyrir markmenn. Það er ekki bara þannig að þú sendir inn beiðni og fáir hana samþykkta sjálfkrafa. Slíkt getur ekki verið plan b hjá liðum sem missa frá sér markmenn. Lið sem missa markmann í félagsskiptaglugganum eiga auðvitað að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að ná sér í annan markmann, það hlýtur að eiga vera plan b. Þeir sóttu hinsvegar um undanþágu, sem ég veitti. Það voru hinsvegar mistök af minni hálfu, sem ég einn ber ábyrgð á og tek fyllilega á mig. Mér yfirsást að Atli hafði þegar spilað leik fyrir KR og mátti því ekki spila með Hvöt. Mér bar síðan skylda til að leiðrétta þau mistök,“ sagði Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ í dag.

En kannski er það einmitt tímasetningin á leiðréttingunni sem er gagnrýnisverð, aðeins 45 mínútum fyrir leik?

„Já, en mér ber að leiðrétta mistökin um leið og þau verða ljós. En það verður líka að horfa á málið út frá mótherjunum, því ættu þeir að líða fyrir þessi mistök. Magna bar skylda til að mæta með löglega skipað lið, og gerðu það, og það sama verður að gilda um mótherjann. Þeir óskuðu eftir frestun, en því á mótherjinn að líða fyrir það?  Þetta er í raun ekkert frábrugðið því ef markvörðurinn hefði meiðst í upphitun, þá hefði sama vandamál verið uppi.“

Markmannsvandræði Hvatarmanna komu hinsvegar ekki að sök í leiknum, því þeir unnu 3:2.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert