Sigurður Ragnar: Besti landsleikur sem ég hef séð Rakel spila

Rakel Hönnudóttir sendir boltann fyrir mark Eistlands. Hún lagði upp …
Rakel Hönnudóttir sendir boltann fyrir mark Eistlands. Hún lagði upp tvö af fyrstu þremur mörkum Íslands. mbl.is/Kristinn

Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari sagðist ekki hafa átt í vandræðum með að ná sínum leikmönnum upp á tábergið fyrir leikinn gegn Eistlandi í kvöld þrátt fyrir að lokakeppni EM væri nýlega afstaðin. Lokatölurnar bera það líka með sér því Ísland sigraði 12:0 og setti met.

„Það var ekkert mál. Það er aldrei erfitt að mótivera þennan hóp. Þær eru allar svo ákveðnar að standa sig vel. Það virkar einnig alltaf sem auka vítamínsprauta fyrir þær að spila á heimavelli. Þær fá alltaf góðan stuðning frá áhorfendum og vita það. Eins þá liggur fyrir að við megum ekki misstíga okkur í þessum riðli. Undankeppni HM er mjög rfitt mót. Við byrjuðum leikinn líka frábærlega vel og skoruðum þrjú mörk á fyrstu 9 mínútunum. Eftirleikurinn var auðveldur,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari í samtali við mbl.is að leiknum loknum.

Sigurður var ánægður með framlag þeirra leikmanna sem nú fengu tækifæri en nokkur forföll voru í leikmannahópi Íslands: „Ég er ánægður með að geta gefið fleirum tækifæri. Það er svolítið langt síðan að við sáum Guðnýju Óðinsdóttur og Ástu Árnadóttur í landsleik. Auk þess fékk Kristín Ýr Bjarnadóttir langþráðan A-landsleik,“ sagði SIgurður ennfremur og sagði Rakel Hönnudóttr hafa spilað frábærlega: „Ég er mjög ánægður með Rakel. Mér fannst hún spila frábærlega vel. Kom mjög sterk inn eins og ég átti von á. Rakel er búin að spila mjög vel í sumar. Hún kemur með mikinn hraða og kraft inn í leik liðsins. Þetta var besti landsleikur sem ég hef Rakel spila.“

Ítarlega er fjallað um leik Íslands og Eistlands í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert