Skagamenn aftur upp í úrvalsdeild

Skagamenn fagna því að úrvalsdeildarsætið á næstu leiktíð er tryggt.
Skagamenn fagna því að úrvalsdeildarsætið á næstu leiktíð er tryggt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skagamenn tryggðu sér sæti í úrvalsdeild á ný eftir þriggja ára fjarveru með því að gera 1:1 jafntefli við ÍR í 1. deild karla í knattspyrnu í Mjóddinni í kvöld. Fimm umferðum er enn ólokið en Skagamenn eru með 16 stiga forskot á liðið í þriðja sæti, og þá eru þeir 12 stigum á undan Selfyssingum sem eru í öðru sæti. 

Baráttan um 2. sætið harðnaði því Selfyssingar töpuðu óvænt á heimavelli gegn Þrótti á meðan BÍ/Bolungarvík lagði Leikni R. að velli.

Selfoss er nú aðeins fjórum stigum á undan BÍ/Bolungarvík sem er í þriðja sætinu.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

ÍR - ÍA, 1:1
Árni Freyr Guðnason 28. - Hjörtur Hjartarson 53.

Víkingur Ó. - HK, 3:0
Edin Beslija 12., 19., Matarr Jobe 43.

Haukar - Grótta, 0:0

Selfoss - Þróttur R., 0:1
Oddur Björnsson 85.

BÍ/Bolungarvík - Leiknir R., 1:0
Tomi Ameobi 41. (víti)

90. Ísafjörður. Leiknismenn áttu skot í stöng á lokaandartökunum en inn vildi boltinn ekki.

90. Breiðholt. Hjörtur og Stefán fengu báðir dauðafæri til að koma Skagamönnum yfir í sömu sókninni en Róbert Örn varði meistaralega frá þeim.

86. Ísafjörður. Staðan er enn 1:0 BÍ/Bolungarvík í vil en Leiknismenn hafa verið nálægt því að jafna metin. Þeir áttu meðal annars skot í þverslána.

85. Selfoss. MARK! Gestirnir voru að komast yfir þvert gegn gangi leiksins með skallamarki Odds Björnssonar eftir skyndisókn.

74. Breiðholt. Skagamenn voru nálægt því að komast yfir þegar Stefán Þórðarson, sem var nýlega kominn inná sem varamaður, kom sér í gott færi vinstra megin í teignum en Róbert Örn varði vel frá honum.

53. Breiðholt. MARK! 1:1 - Skagamenn jöfnuðu metin þegar Hjörtur Hjartarson skoraði með spyrnu af stuttu færi eftir hornspyrnu Mark Doninger. Skagamenn eru á leið í Pepsideildina eins og staðan er núna.

49. Ólafsvík. Leikirnir eru að hefjast að nýju hver á fætur öðrum. Í Ólafsvík voru gestirnir nálægt því að skora sjálfsmark en markvörður þeirra, Ögmundur Ólafsson, bjargaði þeim naumlega.

45. Ísafjörður. Hálfleikur. Leikurinn á Torfnesvelli hefur verið tíðindalítill en mark Tomi Ameobi úr vítaspyrnu skilur liðin að.

45. Ólafsvík. Hálfleikur. Víkingar voru mun betri framan af leik og komust í 2:0 en þá jafnaðist leikurinn. Þeir náðu þó að bæta við þriðja markinu áður en flautað var til leikhlés.

45. Ásvellir. Hálfleikur. Það eru sömu leiðindi í gangi í Hafnarfirði og á Selfossi. Staðan er markalaus og það hefur nánast ekkert verið um færi.

45. Breiðholt. Hálfleikur. ÍR-ingar eru enn 1:0 yfir en geta prísað sig sæla með það. Hjörtur Hjartarson klúðraði víti fyrir Skagamenn og Fannar Freyr Gíslason skaut yfir úr dauðafæri við markteiginn eftir sendingu frá vinstri.

45. Selfoss. Hálfleikur. Nú er kominn hálfleikur á Selfossi í bragðdaufum leik þar sem staðan er 0:0.

43. Ólafsvík. MARK! 3:0 - Matarr Jobe skoraði með skalla eftir hornspyrnu sem kom í kjölfarið á dauðafæri hjá Edin Beslija.

41. Ísafjörður. MARK! 1:0 - Heimamenn komust yfir þegar Tomi Ameobi skoraði úr vítaspyrnu sem Andri Rúnar Bjarnason krækti í.

39. Breiðholt. VÍTI! Fannar Freyr Gíslason nældi vítaspyrnu fyrir ÍA þegar Tómas Agnarsson braut á honum en Róbert Örn Óskarsson varði vítið vel frá Hirti Hjartarsyni.

35. Ísafjörður. Á Ísafirði er allt „steindautt“ eins og tengiliður mbl.is komst að orði. Markalaust og engin færi.

28. Breiðholt. MARK! 1:0 - ÍR-ingar eru komnir yfir með glæsilegu marki fyrirliðans Árna Freys Guðnasonar úr aukaspyrnu rétt utan vítateigsins hægra megin. Hann skaut yfir vegginn og í hægra markhornið. Það ætlar að ganga erfiðlega hjá Skagamönnum að tryggja endanlega sæti sitt í úrvalsdeildinni.

20. Breiðholt. Bæði lið hafa fengið sín færi hérna. Brynjar Benediktsson komst í frábært færi á tíundu mínútu eftir stungusendingu frá Hauki Ólafssyni en skaut rétt yfir mark ÍA. Skagamenn voru svo að gera harða atlögu að marki ÍR eftir hornspyrnu.

18. Ólafsvík. MARK! 2:0 - Edin Beslija bætti við öðru marki með laglegum hætti eftir að hafa leikið á tvo varnarmenn. Víkingar eru mun betri.

12. Ólafsvík. MARK! 1:0 - Víkingar frá Ólafsvík byrja með látum gegn lánlausum leikmönnum HK. Edin Beslija skorar fyrir þá með skoti eftir fyrirgjöf.

1. Leikirnir eru byrjaðir

0. Byrjunarliðin eru klár og hægt að sjá þau með því að smella á leikskýrslurnar hér að neðan.

ÍR - ÍA, leikskýrsla
Haukar - Grótta, leikskýrsla
Víkingur Ó. - HK, leikskýrsla
Selfoss - Þróttur R., leikskýrsla
BÍ/Bolungarvík - Leiknir R., leikskýrsla

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert