Ásgeir einn af 25 bestu

Ásgeir Sigurvinsson ræðir við leikmenn þegar hann var landsliðsþjálfari.
Ásgeir Sigurvinsson ræðir við leikmenn þegar hann var landsliðsþjálfari. mbl.is

Ásgeir Sigurvinsson er eini íslenski knattspyrnumaðurinn sem kemst á lista yfir 25 bestu leikmenn frá upphafi á Norðurlöndum að mati Marco de los Reyes, sem skrifar um alþjóðlegan fótbolta, Ólympíuleika og sögulega atburði í íþróttaheiminum fyrir vefútgáfu danska ríkisútvarpsins, dr.dk.

Ásgeir er 23. sæti á listanum en Eyjmaðurinn, sem hóf feril sinn með ÍBV áður en hann gekk í raðir Standard Liege í Belgíu árið 1973, gerði garðinn frægan í Þýskalandi með Bayern München og síðan Stuttgart. Hann var útnefndur leikmaður ársins í þýsku Bundesligunni árið 1984. Þar skaut hann mörgum af fremstu knattspyrnumönnum heims ref fyrir rass.

Zlatan landsmeistari með fimm félögum

Besti fótboltamaður Norðurlanda frá upphafi að mati sérfræðings dr.dk er Svíinn Zlatan Ibrahimovic, en framherjinn stóri og stæðilegi komst heldur betur í sviðsljósið í síðustu viku þegar hann skoraði fjögur glæsileg mörk í sigurleik Svía gegn Englendingum. Zlatan hefur orðið landsmeistari með Ajax, Juventus, Inter, Barcelona og AC Milan og þegar hann skoraði fyrir Paris SG í Meistaradeildinni á þessu tímabili varð hann sá fyrsti sem nær því að skora fyrir sex mismunandi lið í Meistaradeildinni.

Í öðru sæti á listanum er Daninn Michael Laudrup sem lék meðal annars með Ajax, Barcelona, Juventus og Real Madrid. Hann varð landsmeistari með öllum liðunum og varð Evrópumeistari með Börsungum árið 1992. Með danska landsliðinu átti hann góðu gengi að fagna og átti frábæra leiki með Dönum í úrslitakeppni HM 1986 og 1998.

Í þriðja sæti kemur svo danski markvörðurinn Peter Schmeichel. Hann átti stóran þátt í að Danir unnu Evrópumeistaratitilinn árið 1992 og það sama ár var hann útnefndur besti markvörður heims. Schmeichel varð fimm sinnum Englandsmeistari með Manchester United og vann þrennuna eftirminnilegu með liðinu tímabilið 1998-99.

Þessir 25 bestu fótboltamenn Norðurlanda frá upphafi að mati Marco de los Reyes eru:

1. Zlatan Ibrahimovic, Svíþjóð(1981-)

2. Michael Laudrup, Danmörku (1964-)

3. Peter Schmeichel, Danmörku (1963-)

4. Allan Simonsen, Danmörku (1952-)

5. Gunnar Gren, Svíþjóð (1920-1991)

6. Gunnar Nordahl, Svíþjóð (1921-1995)

7. Preben Elkjær, Danmörku(1957-)

8. Henrik Larsson, Svíþjóð (1971-)

9. Ronnie Hellström, Svíþjóð (1949- )

10. Nils Liedholm, Svíþjóð (1922-2007)

11. Tomas Brolin, Svíþjóð (1969-)

12. Harald Nielsen, Danmörku (1941-)

13.Brian Laudrup, Danmörku (1969-)

14. Morten Olsen, Danmörku(1949-)

15. Jari Litmanen, Finnlandi (1971-)

16. Kurt Hamrin, Svíþjóð (1934-)

17. Sören Lerby, Danmörku (1958-)

18. Frank Arnesen, Danmörku (1956-)

19. Jon Dahl Tomasson, Danmörku (1976-)

20. Carl Aage Præst, Danmörku (1922-2011)

21. John Hansen, Danmörku (1924-1990)

22. Rune Bratseth, Noregi (1961-)

23. Ásgeir Sigurvinsson, Íslandi (1955-)

24. Lennart Skoglund, Svíþjóð (1929-1975)

25. Thomas Ravelli, Svíþjóð (1959-)

Eiður, Albert og Ríkharður

Vafalaust gera fjölmargir athugasemdir við þennan lista sem getur engan veginn verið tæmandi enda margir kallaðir en fáir útvaldir. Hvað íslenska leikmenn varðar gæti maður hæglega séð fyrir sér leikmenn á borð við Albert Guðmundsson, Ríkharð Jónsson og Eið Smára Guðjohnsen á listanum svo einhverjir séu nefndir en sá síðastnefndi hefur orðið landsmeistari með Chelsea og Barcelona og Evrópumeistari með Katalóníuliðinu.

Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær gerir líka sterkt tilkall inn á listann enda ótrúlegur markaskorari sem varð sex sinnum Englandsmeistari með Manchester United og tryggði liðinu Evrópumeistaratitilinn í úrslitaleiknum fræga gegn Bayern München árið 1999.

Zlatan fagnar marki með Paris SG um síðustu helgi.
Zlatan fagnar marki með Paris SG um síðustu helgi. AFP
Michael Laudrup
Michael Laudrup AFP
Peter Schmeichel.
Peter Schmeichel. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert