Manchester United örugglega áfram

Wayne Rooney skoraði þrennu gegn Club Brugge í kvöld og …
Wayne Rooney skoraði þrennu gegn Club Brugge í kvöld og Ander Herrera eitt. AFP

Manchester United vann öruggan 4:0 sigur á Club Brugge á Jan Breydel Stadium í kvöld og viðureignina samanlagt 7:1. Manchester United verður þar af leiðandi með í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu eftir ársfrí frá keppninni. 

Wayne Rooney þaggaði niður í þeim gagnrýnisröddum sem hafa verið uppi um að honum sé fyrirmunað að skora mörk og eigi því ekki að vera fremsti maður Manchester United með því að skora þrennu í kvöld. 

Ander Herrera sem var í fyrsta skipi í byrjunarliði Manchester United á tímabilinu bætti svo við fjórða marki Manchester United. 

Memphis Depay átti góðan leik í kvöld, en hann átti stóran þátt í fyrstu tveimur mörkum Manchester United. 

Javier Hernandez fékk síðan tvö upplögð tækifæri til þess að skora, annars vegar úr vítaspyrnu og hins vegar þegar hann fékk boltann með autt markið fyrir framan sig. Hernandez brást bogalistinn í bæði skiptin. 

Manchester United verður í hattinum þegar dregið verður í riðla i Meistaradeild Evrópu á morgun. 

Astana, Bayern Leverkusen, CSKA Moskva og Bate Borisov tryggðu sér einnig þátttökurétt í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld. 

_______________________________________________________________________

90. Leik lokið með 4:0 sigri Manchester United. 

90. Javier Hernandez eru mislagðar fætur upp við mark Club Brugge í kvöld. Hernandez misnotar algert daufæri.

84. Dierckx fer meiddur af velli og Club Brugge eru búnir með sínar skiptingar og leika því einum leikmann færri síðustu mínúturnar. Dierckx bætist á langan meiðslalista Club Brugge. 

81. Javier Hernandez misnotar vítaspyrnuna. Hernandez rennur í aðhlaupinu og setur boltann framhjá. 

80. Manchester United fær vítaspyrnu. Duarte fær boltann í höndina inni í vítateignum. 

78. Skalli yfir markið frá Javier Hernandez. 

77. Skipting hjá Club Brugge. Bolingoli kemur útaf og Cools kemur inná. 

76. Vormer fær gult spjald fyrir brot. 

73. Vormer með skot fyrir Club Brugge sem fer yfir. 

66. Vanaken með frábært skot í þverslána eftir fallegt samspil með De Sutter. 

64. Skipting hjá Manchester United. Ander Herrera fer útaf og Javier Hernandez kemur inná. 

63. MARK. Staðan er 4:0 fyrir Manchester United. Ander Herrera skorar fjóðra mark Manchester United í leiknum.

63. Skipting hjá Club Brugge. Diaby fer útaf og Dierckx kemur inná. 

62. Skipting hjá Club Brugge. Vázquez fer útaf og Vanaken kemur inná.

58. Wayne Rooney nálægt því að bæta við fjórða markinu en Sinan Bola ver frá honum. 

56. MARK. Staðan er 3:0 Manchester United. Wayne Rooney fullkomnar þrennuna með mark eftir sendingu frá Juan Mata. 

52. Memphis Depay fer niður inni í vítateigsnum og Club Brugge eru stálheppnir að fá ekki dæmda á sig vítaspyrnu.  

48. MARK. Staðan er 2:0 fyrir Manchester United. Wayne Rooney skorar í autt markið eftir frábæran undirbúning frá Ander Herrera og Memphis Depay.

47. Rooney fer niður í vítateignum og vill fá vítaspyrnu, en spænskur dómari leiksins er ekki á sama máli og dæmir ekkert. 

46. Seinni hálfleikur er hafinn .

46. Skipting hjá Manchester United. Januzaj kemur út af og Schweinsteiger kemur inn á. 

45. Hálfleikur. Staðan er 1:0 fyrir Manchester United í hálfleik. 

45. Claudemir fær gult spjad fyrir brot. 

43. Diaby kemst einn i gegn eftir góða stungusendingu frá Vázquez, en Romero bjargar með góðu úthlaupi. 

42. Club Brugge fær hornspyrnu. 

41. De Sutter með skot sem Romero ver.

35. Ander Herrera fær gott færi eftir hornspyrnu en skýtur framhjá. 

34. Memphis Depay slapp einn í gegnum vörn Club Brugge. Var óviss hvort að hann ætlaði að senda boltann á Wayne Rooney sem kom aðvífandi eða skjóta sjálfur. Ákvað á endanum að skjóta sjálfur, en varnarmaður Club Brugge komst fyrir skotið. 

28. Ander Herrera með skot yfir markið. 

20. MARK. Staðan er 1:0 fyrir Manchester United. Wayne Rooney kemur Manchester United yfir eftir frábæran undirbúning frá Memphis Depay. 

12. Ander Herrera fær gult spjald fyrir brot. 

10. Rooney á skot sem fer yfir. 

5. De Sutter með skot fyrir Club Brugge sem varnarmenn Manchester United komast fyrir. 

1. Leikurinn er hafinn í Brugge. 

0. Liðin eru þannig skipuð: 

Byrjunarlið Club Brugge: Sinan Bolat (M)De fauw, Duarte, Castelletto, De Bock, Bolingoli Mbombo, Claudemir, Vázquez (F)Vormer, De Sutter og Diaby. 

Varamenn: Bruzzese (M)Meunier, Cools, De Smul, Vanaken, Dierckx og Oulare.

Byrjunarlið Manchester United: Romero (M)Smalling, Shaw, Darmian, Januzaj, Carrick, Blind, Ander Herrera, Depay, Juan Mata og Rooney (F).

Varamenn: Johnstone (M)McNair, Young, Fellaini, Schneiderlin, Schweinsteiger og Hernández. 

0. Manchester United hefur aldrei tapað viðureign í umspili um sæti í Evrópukeppni. Manchester United tók meðal annars þátt í forkeppni Meistaradeildar Evrópu þegar liðið vann þrennuna tímabilið 1998/1999.

0. Club Brugge hefur ekki tekið þátt í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu síðan liðið var þar tímabilið 2005/2006. Manchester United var ekki með í Meistaradeild Evrópu á síðastliðnu tímabili í fyrsta skipti síðan tímabilið 1995/1996. 

0. Club Brugge eru taplausir í síðustu tíu heimaleikjum sínum í Evrópukeppni á meðan Manchester United hefur tapað síðustu tveimur leikjum sínum í Evrópukeppni. 

0. Það hefur rignt eins og hellt hafi verið úr fötu í Brugge í dag og líklegt að veðrið muni setja strik í reikninginn í leiknum í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert