Real Madrid varði Evrópumeistaratitilinn

Real Madrid tryggði sér í kvöld sigur í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu, annað árið í röð, þegar liðið vann Juventus í úrslitaleik í Cardiff. Cristiano Ronaldo skoraði tvívegis í 4:1-sigri Real.

Ronaldo kom spænsku meisturunum yfir á 20. mínútu þegar hann skoraði með skoti úr teignum eftir að Dani Carvajal kom boltanum á hann. En aðeins sjö mínútum síðar jafnaði Juventus og það með hreint stórkostlegu marki.

Króatinn Mario Mandzukic tók þá boltann á kassann utarlega í teignum, henti sér svo upp og skoraði með glæsilegri bakfallsspyrnu. Stórfenglegt jöfnunarmark og staðan 1:1 í hálfleik.

Real Madrid var sterkari aðilinn eftir hlé og það virtist ljóst að eitthvað þyrfti undan að láta. Það gerðist á 61. mínútu þegar Casemiro lét vaða langt fyrir utan teig, boltinn fór af varnarmanni og þaðan framhjá Gianlugi Buffon í marki Juventus. Staðan 2:1 fyrir Real Madrid.

Aðeins þremur mínútum síðar kom Cristiano Ronaldo svo aftur við sögu fyrir Real þegar hann skoraði eftir sendingu frá Luka Modric eftir að hafa ráðist eins og gammur á nærstöngina. Staðan 3:1 fyrir Real.

Sex mínútum fyrir leikslok missti Juventus Juan Cuadrado af velli með sitt annað gula spjald og á lokamínútunni gerði Marco Asensio út um leikinn með marki eftir undirbúning Marcelo. Lokatölur 4:1 og Real Madrid stendur uppi sem sigurvegari í Meistaradeildinni annað árið í röð.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Juventus 1:4 Real Madrid opna loka
90. mín. Marco Asensio (Real Madrid) skorar 1:4 - Þá er það síðasti naglinn í kistu Juventus! Marcelo með boltann við endamörkin, sendir fyrir þar sem Marco Asensio tekur við honum og kemur í netið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert