Norðmenn ósáttir við Lagerbäck

Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari Norðmanna í knattspyrnu
Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari Norðmanna í knattspyrnu mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lars Lagerbäck, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, er gagnrýndur harkalega í norskum fjölmiðlum eftir 1:2 ósigur fyrir Serbum í Ósló í gær, í undanúrslitum umspilsins fyrir EM 2021, sem þýðir að Norðmenn sitja enn og aftur heima þegar kemur að stórmóti hjá karlalandsliðunum.

Egil „Drillo“ Olsen, fyrrverandi landsliðsþjálfari Norðmanna, sagði í viðtali við TV 2 að margt varðandi norska landsliðið væri gagnrýnisvert. „Mistök í skipulagi, mistök í leikaðferð, og liðsvalið hjá Lagerbäck, þetta set ég allt spurningarmerki við. Hann var mjög íhaldssamur varðandi liðsvalið, hann hefði mátt nota fleiri leikmenn sem eru í leikæfingu hjá sínu félagsliði," sagði Olsen.

Þá er Lagerbäck m.a. gagnrýndur fyrir innáskiptingar í leiknum. Sjálfur sagði hann eftir leikinn að lið sitt hefði verið vel undirbúið og planið hefði verið að spila þéttari varnarleik en raunin varð. „Við vorum of opnir og Serbarnir eru það góðir að þeir nýttu sér það til að skapa sér mörg marktækifæri. Við spiluðum ekki eins og vel og við hefðum getað gert," sagði Lagerbäck.

Dagbladet kallar eftir því að Lagerbäck verði sagt upp störfum og segir að Ståle Solbakken sé maðurinn sem eigi að leiða norska liðið á HM 2022.

Lagerbäck er samningsbundinn framyfir HM og forráðamenn norska knattspyrnusambandsins sögðu eftir leikinn að engar áætlanir væru um að gera breytingar þrátt fyrir ósigurinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert